„Á eftir að finna hann og knúsa“

Sigtryggur Daði Rúnarsson í baráttu við Adam Hauk Baumruk í …
Sigtryggur Daði Rúnarsson í baráttu við Adam Hauk Baumruk í kvöld. Kristinn Magnússon

Sigtryggur Daði Rúnarsson, leikmaður ÍBV, segir sterka vörn hafa lagt grunninn að sterkum 29:26-sigri liðsins á Haukum í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handknattleik karla í kvöld.

„Leikurinn var svolítið kaflaskiptur eins og síðasti leikur var. Við byrjuðum aftur illa í sókn en náðum svo að finna okkur betur. Heilt yfir eru bæði lið með mjög góða vörn og markvörslu.

Ég veit ekki hvað gerir útslagið í lokin en 5-1-vörnin okkar lokar algjörlega á þá og svo erum við farnir að fá betri færi í sókninni og erum kannski klókari en við vorum í byrjun.

En þetta var mjög jafn leikur og ég er bara feginn að hafa klárað hann,“ sagði Sigtryggur Daði í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

Fyrstu tíu mínútna bölvun

Eins og hann nefnir fóru Eyjamenn nokkuð hægt af stað í sókninni. Hvað veldur því?

„Það er erfitt að útskýra það. Þetta var svona líka í einvíginu við FH. Þá áttum við þetta til en það er ekki eins og við séum ekki mættir tilbúnir. Mér finnst við oft spila ágætlega en þá eru slúttin ekki að detta.

Kannski er þetta einhver bölvun, fyrstu tíu mínútna bölvun á okkur. Við munum gera allt til þess að breyta þessu í næsta leik og gefa fólkinu heima alvöru byrjun. Við sjáum vonandi hörkuleik á föstudaginn,“ sagði Sigtryggur Daði.

Erum það heilsteyptur hópur

ÍBV leiðir 2:0 í einvíginu og getur með sigri í þriðja leik í Vestmannaeyjum á föstudag tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Hvernig hyggjast Eyjamenn halda sér á jörðinni, vitandi af þeim möguleika?

„Það er ansi auðvelt að fara í eitthvað hugarfar að það sé bara einn leikur eftir og menn fara kannski að hugsa um hvernig það verður þegar við vinnum eða eitthvað svoleiðis.

En ég held að við séum bara það heilsteyptur hópur að það kemst ekkert að nema leikurinn sjálfur. Þetta er bara leikur í einvíginu fyrir okkur, leikur þrjú, og Íslandsmeistaratitillinn er undir hjá okkur en við vitum að þeir munu mæta dýrvitlausir og gera allt sem þeir geta.

Þannig að við undirbúum okkur bara fyrir hörkuleik og reynum ekkert að pæla í því sem kemur eftir á ef vel gengur,“ útskýrði hann.

Jafn tapsár og ég

Sigtryggur Daði fékk einu sinni tveggja mínútna brottvísun í leiknum þegar hann tók hressilega á yngri bróður sínum í liði Hauka, Andra Má, sem lá eftir. Spurður út í það atvik sagði Sigtryggur Daði að lokum:

„Ég reyndi að knúsa hann eftir leik en hann er jafn tapsár og ég eftir tapleiki, eðlilega. Ég á eftir að finna hann og knúsa hann.

Eftir einvígið eigum við eftir að taka innilegt faðmlag. Það er kannski ekki tími fyrir það í miðju einvíginu en ég trúi því ekki að hann sé fúll, allavega ekki lengi.“

Andri Már Rúnarsson með boltann í kvöld.
Andri Már Rúnarsson með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert