Viðskipti innlent

Úr bæjar­stjóra­stól í for­stjóra­stól OR

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sævar Frey Þráinsson verður nýr forstjóri OR.
Sævar Frey Þráinsson verður nýr forstjóri OR. Vísir

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ráðið Sævar Frey Þráinsson, bæjarstjóra á Akranesi, í starf forstjóra fyrirtækisins og mun hann hefja störf þann 1. apríl næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni. Sævar Freyr mun taka við af Bjarna Bjarnasyni sem verið hefur forstjóri undanfarin tólf ár.

Í tilkynningu Orkuveitunnar segir að Sævar Freyr búi yfir mikilli reynslu og þekkingu eftir að hafa stýrt stórum fyrirtækjum og nú síðast sveitarfélagi. 

Sævar Freyr hefur meðal annars starfað sem forstjóri Símans, 365 miðla og nú síðast sem bæjarstjóri. 

„Þar sem Akraneskaupstaður er einn eigenda OR, hefur Sævar Freyr haft hlutverki að gegna gagnvart fyrirtækinu, sem bæjarstjóri. Hann hefur meðal annars stutt við framgang Carbfix og nýtt reynslu sína og bakgrunn í verkefnum tengdum Ljósleiðaranum,“ segir í tilkynningunni.

Sævar er með cand.oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á markaðsmál. Starfsreynsla Sævars telur hátt í þrjátíu ár og hefur hann verið stjórnandi nær allan þann tíma. Hann starfaði hjá Símanum í 18 ár og þar af sjö ár sem forstjóri. Hann var forstjóri 365 miðla í þrjú ár en frá árinu 2017 hefur hann gegnt stöðu bæjarstjóra í heimabæ sínum Akranesi.

Í tilkynningu frá Akranesbæ er Sævari þakkað fyrir góð störf í þágu Akraness. Leitað verði að nýjum bæjarstjóra en í millitíðinni muni Steinar Adolfsson, sviðsstjóri fjármála- og þjónustusviðs,  gegna starfinu eftir að Sævar lýkur störfum og þar til nýr bæjarstjóri tekur til starfa.


Tengdar fréttir

Forstjóri OR hyggst láta af störfum

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hyggst láta af störfum frá og með 1. mars á næsta ári. Ný stjórn tekur senn við taumunum hjá Orkuveitunni. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×