Landsliðsfyrirliðinn áfram á Spáni?

Aron Pálmarsson í leik með Barcelona í Meistaradeildinni milli jóla …
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona í Meistaradeildinni milli jóla og nýárs. Ljósmynd/Barcelona

Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í handknattleik, verður áfram í herbúðum Spánarmeistara Barcelona á næstu leiktíð.

Það er spænski miðillinn Catalunya Radio sem greinir frá þessu en samningur Arons við spænska liðið rennur út næsta sumar.

Aron, sem er þrítugur, á að baki farsælan feril sem atvinnumaður en hann gekk til liðs við Barcelona sumarið 2017 frá Veszprém í Ungverjalandi.

Aron hélt í atvinnumennsku frá uppeldisfélagi sínu FH árið 2009 þegar hann gekk til liðs við þýska stórliðið Kiel þar sem hann lék fyrir Alfreð Gíslason.

Þaðan lá leiðin til Ungverjalands árið 2015 þar sem hann lék í tvö tímabil áður en hann hélt til Spánar.

Hann hefur fimm sinnum orðið Þýskalandsmeistari, tvívegis ungverskur meistari og tvívegis Spánarmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert