Íshellan heldur áfram að síga

Grímsvötn.
Grímsvötn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Íshellan yfir Grímsvötnum hefur haldið áfram að síga nokkuð jafnt í nótt. Frá þessu er greint á vef Veðurstofunnar en þar segir að hellan hafi sigið um 25 sentimetra frá því um klukkan tíu í gærmorgun. Þetta sýni GPS-mælir stofnunarinnar.

Engar markverðar breytingar hafi á sama tíma mælst í Gígjukvísl, hvort sem er á vatnshæð, rafleiðni né gasi, en búist er við því að væntanlegt hlaup úr jöklinum færi í farveg hennar.

Mörg dæmi um gos eftir hlaup

Til eru mörg dæmi um að gos verði í kjölfar þess að vatnsborð Grímsvatna falli nokkuð skyndilega í upphafi jökulhlaups. Lækkun fargsins við skyndilegt útrennsli úr vötnunum veldur því að þrýstingur á kvikuhólfið undir öskjunni lækkar, sem setur kerfið úr jafnvægi.

Af þeim sökum er fylgst grannt með þróun mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert