Alltof mikið um brot á sóttvarnareglunum

Ole Erevik, bláklæddur, fagnar sigri með norska liðinu á EM …
Ole Erevik, bláklæddur, fagnar sigri með norska liðinu á EM fyrir fimm árum. AFP

Norðmenn halda áfram að gagnrýna egypsku mótshaldarana fyrir slælega frammistöðu í sóttvarnamálum á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla sem hófst í Egyptalandi í dag og á að standa til 31. janúar.

Ole Erevik, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Norðmanna, er einn af fjórum norskum fjölmiðlamönnum á mótinu. Hann sagði í viðtali við VG í kvöld að allt væri í reiðileysi hvað varðaði varnir gegn kórónuveirunni en fyrr í dag gagnrýndi Sander Sagosen, aðalstjarna norska liðsins, aðstæðurnar harðlega og kvaðst óttast að smitast af veirunni.

„Þetta er allt í rugli og hefur verið það síðan við stigum fæti á egypska jörð. Það hefur verið afar lítil stjórn á hlutunum hérna og ég skil vel að það hafi komið fram gagnrýni. Ef þetta heldur svona áfram í þrjár vikur er algjörlega óforsvaranlegt að halda þetta heimsmeistaramót,“ sagði Erevik.

„Við horfum upp á grátbroslega hluti og það er sláandi hve lítið er af aðgerðum hérna gagnvart þeim heimsfaraldri sem herjar á okkur. Við erum á flottu fimm stjörnu hóteli, en það er bara alltof mikið af fólki hérna. Það er alltof mikið um brot á sóttvarnareglunum og þeim skipulagsreglum sem settar voru til að koma í veg fyrir smit innan búbblunnar. Ég get ekki í mínum villtustu draumum séð fyrir mér að það verði hægt að forðast smit hérna næstu þrjár vikurnar,“ sagði markvörðurinn fyrrverandi.

Læknir norska liðsins sagði í dag að hann óttaðist mjög að smit myndu breiðast út á hóteli Norðmanna en þar búa líka lið Egyptalands, Svíþjóðar, Argentínu og Kongós. VG hafði eftir honum að á hæð norska liðsins væri fullt af fólki sem hann vissi engin deili á.

„Við verðum að bíða og sjá. Kannski hef ég rangt fyrir mér. Kannski gengur þetta upp hjá þeim. Kannski taka þeir eitthvert mark á viðbrögðum þátttökuliðanna. Þeir verða að gera það. Þetta mun aldrei ganga í þrjár vikur. Haldi þeir áfram á þessari braut verður að læsa öllu og slökkva öll ljós. Þá verður draumaverkefni Moustafa honum að falli,“ sagði Erevik og átti þar við Hassan Mustafa, hinn egypska forseta Alþjóðahandknattleikssambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert