Barcelona vann stórleikinn í Tórínó

Lionel Messi og félagar fögnuðu sigri.
Lionel Messi og félagar fögnuðu sigri. AFP

Barcelona gerði góða ferð til Tórínó og vann 2:0-sigur á Juventus í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Ousmane Dembélé skoraði fyrra markið á 14. mínútu og Lionel Messi það seinna í uppbótartíma úr víti.

Álvaro Morata var áberandi hjá Juventus en hann kom boltanum í þrígang í netið. Því miður fyrir Spánverjann var hann í rangstöðu í öll skiptin. Merih Demiral hjá Juventus fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 85. mínútu. 

Barcelona er í toppsæti G-riðils með sex stig eftir tvo leiki og Juvetus er í öðru með þrjú. Dynamo Kíev og Ferencváros eru í tveimur neðstu sætunum með eitt stig hvort en þau skildu jöfn í Búdapest í kvöld, 2:2. 

Jadon Sancho skorar fyrra mark Dortmund.
Jadon Sancho skorar fyrra mark Dortmund. AFP

Dortmund er komið á blað í F-riðli eftir 2:0-sigur á Zenit á heimavelli. Jadon Sancho kom Dortmund yfir á 78. mínútu með marki úr víti og Erling Braut Haaland gulltryggði sigurinn með marki í uppbótartíma. 

Lazio og Club Brugge eru í tveimur efstu sætum riðilsins með fjögur stig eftir 1:1-jafntefli í Belgíu. Joaquín Correa kom Lazio yfir á 14. mínútu en Hans Vanaken jafnaði úr víti á 42. mínútu og þar við sat. 

Þá náði Sevilla í sinn fyrsta sigur í E-riðli, en spænska liðið vann Renne á heimavelli, 1:0. Luuk de Jong skoraði sigurmarkið á 55. mínútu. Sevilla er ásamt Chelsea á toppnum í riðlinum með fjögur stig. 

Sevilla hafði betur gegn Rennes.
Sevilla hafði betur gegn Rennes. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert