Freyr kveður – lagði líf og sál í starfið

Freyr Alexandersson kveður KSÍ.
Freyr Alexandersson kveður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson birti í dag færslu á Instagram þar sem gefur í skyn að hann muni ekki halda áfram að vinna í kringum karlalandsliðið í fótbolta, en hann hefur verið aðstoðarþjálfari Eriks Hamréns síðustu tvö ár.

„Eins og staðan er í dag er komið að ferðalokum hjá mér með Íslenska landsliðinu," byrjar Freyr pistil þar sem hann fer yfir tíma sinn hjá KSÍ, en hann skrifaði fyrst undir samning við sambandið árið 2013. 

Síðan þá hefur hann þjálfað kvennalandsliðið, njósnað fyrir karlalandsliðið og loks verið aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins. Freyr hefur farið á þrjú stórmót, eitt með kvennalandsliðinu og tvö með karlalandsliðinu. 

„Eitt er víst, ég lagði líf og sál í starfið. Það er og á að vera það eina sem er í boði þegar þú vinnur fyrir Ísland. Annað veit ég, reynslan sem ég hef áunnið mér mun nýtast Íslandi aftur. Hvenær getur framtíðin ein leitt í ljós," skrifaði Freyr sömuleiðis.

Færsla Freys Alexanderssonar:

“Að ferðalokum finn ég þig sem mér fagnar höndum tveim.”

Haustið 2013 skrifaði ég undir minn fyrsta samnings við KSÍ.
Ekki óraði mér fyrir hvers lags ferðalag biði mín næstu sjö árin.
Breytingin á sambandinu á þessum sjö árum er í raun ólýsanleg en á þessum tíma fékk ég að upplifa og taka þátt í því sem má kalla gullskeið Íslenskrar knattspyrnu.

Ég er 38ára og er búinn að upplifað það að fara á þrjú stórmót í knattspyrnu. Í öll skiptin var ég í stórum hlutverkum sem voru bæði krefjandi en ekki síður gríðarlega gefandi.
Ég mun alltaf minnast þessa tíma með þakklæti og gleði í hjarta.

Með velgengni fylgja alltaf væntingar og sársaukinn sem fylgir því að komast ekki á lokamót er óbærilegur. Það hef ég einnig fengið að upplifa tvisvar sinnum og í bæði skiptin á loka augnablikum leiksins en þessar seinustu fimm mínútur á Puskas Areana munu aldrei gleymast. Spurningin er bara hvað maður á að gera við slíkar tilfinningar, það eina sem hægt er að gera er að læra af þeim. Um það snýst þessi leikur. Að notfæra sér öll augnablik til þess að vera betri.

Eins og staðan er í dag er komið að ferðalokum hjá mér með Íslenska landsliðinu.
Öll þessi reynsla, allar þessar minningar eru mínar. Get ekki lýst því nægilega vel hversu þakklátur ég er fyrir minn tíma.

Leikmenn og starfsmenn sem ég hef unnið með, ég á ykkur svo mikið að þakka. Við ykkur öll get ég bara sagt takk fyrir ferðalagið!

Eitt er víst, ég lagði líf og sál í starfið. Það er og á að vera það eina sem er í boði þegar þú vinnur fyrir Ísland. Annað veit ég, reynslan sem ég hef áunnið mér mun nýtast Íslandi aftur. Hvenær getur framtíðin ein leitt í ljós.

View this post on Instagram

A post shared by freyrale (@freyrale)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert