Tvíburar sakaðir um morð á hjólreiðamanni

Maður á hjóli.
Maður á hjóli. Ljósmynd/Colourbox

Tvíburabræður mæta fyrir rétt á næsta ári, sakaðir um að hafa myrt hjólreiðamanninn Tony Parsons og grafið lík hans.

Saksóknarar segja að bræðurnir, þeir Alexander og Robert McKellar sem eru þrítugir, hafi drepið Parsons, sem var 63 ára, í september árið 2017 .

Parsons hvarf á meðan hann var í úti að hjóla. Lík hans fannst ekki fyrr en í janúar í fyrra við veg skammt frá sveitabæ í Bridge of Orchy í Skotlandi.

Tvíburarnir neita sök. Búist er við því að réttarhöldin, sem hefjast í júlí, muni standa yfir í um níu daga, að sögn BBC.

Grimmileg árás

Alexander er ákærður fyrir að hafa ekið undir áhrifum áfengis á Parsons og slasað hann alvarlega. Saksóknarar halda því fram að bræðurnir hafi í framhaldinu ráðist með grimmilegum hætti á hjólreiðamanninn án þess að spá nokkuð í afleiðingarnar.

Lögreglan handtók tvíburabræðurna.
Lögreglan handtók tvíburabræðurna. AFP

Að sögn saksóknara skildu bræðurnir Parsons, sem var fyrrverandi sjóliðsforingi, eftir við vegkant í myrkri á afskekktum stað í slæmu veðri. Þeir hafi í framhaldið ekið bílnum á landssvæðið Auch Estate í hálöndunum. Þaðan hafi þeir snúið aftur á öðrum bíl, sett lík Parsons í hann, ásamt hjólinu og öðrum eigum hans og ekið aftur til Auch Estate.

Földu líkið í skóglendi

Þar hafi þeir falið líkið undir dúk í skóglendi en síðar flutt það á annað svæði í Auch Estate þar sem dýr eru venjulega grafin.

Bræðurnir eru einnig sagðir hafa losað sig við hjólið og persónulega muni Parsons og jafnframt stolið 60 pundum úr veski hans. Því næst hafi þeir farið með bílinn í viðgerð. Gáfu þeir þá skýringu að þeir hefðu ekið á hjört.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert