Dramatík í uppbótartímanum í Safamýri

Sigurður Bjartur Hallsson skoraði sigurmark Grindvíkinga gegn Fram.
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði sigurmark Grindvíkinga gegn Fram. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Grindvíkingar settu stórt strik í baráttuna um sæti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu þegar þeir knúðu fram dramatískan sigur á Frömurum, 2:1, í Safamýrinni í kvöld.

Aron Jóhannsson kom Grindvíkingum yfir eftir hálftíma leik í Safamýri og þeir voru með 1:0 forystu í hálfleik. Alexander Már Þorláksson jafnaði fyrir Framara eftir fimm mínútur í síðari hálfleiknum, 1:1.

Bæði lið misstu mann af velli með rautt spjald á lokakafla leiksins. Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindavíkur var rekinn útaf á 81. mínútu og Framarinn Unnar Steinn Ingvarsson sex mínútum síðar.

Allt stefndi í níunda jafntefli Grindvíkinga í deildinni í ár en í uppbótartímanum skoraði Sigurður Bjartur Hallsson sigurmark Suðurnesjaliðsins, 2:1.

Frömurum mistókst því að komast á topp deildarinnar. Keflavík, sem vann Þrótt 4:2 fyrr í kvöld, er með 34 stig og á leik til góða á Leikni R. og Fram sem eru með 33 stig. ÍBV og Þór eru með 27 stig og síðan koma Grindavík og Vestri með 26 stig. Grindvíkingar eygja enn von eftir þennan sigur því þeir eiga inni frestaðan leik gegn Keflvíkingum.

Afturelding er komin á lygnan sjó í deildinni eftir 1:0 sigur á Víkingi frá Ólafsvík að Varmá í kvöld. 

Kári Steinn Hlífarsson skoraði sigurmarkið á 32. mínútu en Afturelding er komin með 21 stig í áttunda sætinu, níu stigum frá fallsæti. Ólafsvíkingar eru með 16 stig en fyrir neðan eru Þróttur R. og Leiknir F. með 12 stig og Magni með 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert