Brjóstaskimanir í Skógarhlíð til 1. apríl

Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landspítalans, og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri …
Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landspítalans, og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, við innganginn í Skógarhlíð eftir undirritun samningsins. Ljósmynd/Aðsend

Landspítalinn og Krabbameinsfélagið hafa undirritað samning um kaup spítalans á röntgentækjum, ómtækjum og skjáum, auk annarra tækja, sem verða notuð við klínískar brjóstaskoðanir og skimanir fyrir brjóstakrabbameinum.

Einnig var undirritað samkomulag um að Landspítalinn leigir húsnæði og tölvubúnað Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð sem er notaður við brjóstaskimanir og klínískar brjóstaskoðanir til 1. apríl, að því er segir í tilkynningu.

Breytingar verða á fyrirkomulagi brjósta-og leghálsskimana frá næstu áramótum. Þá færist skimunin til opinberra stofnana eftir en leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur sinnt skimunninni í áratugi. Breytinguna má rekja til ákvörðunar heilbrigðisráðherra sem var kynnt í mars 2019 um að skimanir væru á höndum hins opinbera heilbrigðiskerfis.

Leghálsskimanir verða framvegis hjá heilsugæslunni á meðan Landspítalinn tekur við brjóstaskimunum, klínískum brjóstaskoðunum og leghálsspeglunum. Fyrst um sinn, eða til 1. apríl, verða brjóstaskimanir þó enn framkvæmdar í húsakynnum Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8 en starfsemin öll á ábyrgð Landspítalans.

„Krabbameinsfélagið og starfsfólk leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins leggur sig fram um að vinna með stofnunum hins opinbera til að reyna að tryggja að vistaskiptin gangi vel fyrir sig,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, í tilkynningunni.

„Markmiðið er auðvitað að engin röskun verði á skimun fyrir krabbameinum. Við vitum að það getur skipt sköpum fyrir konur í landinu að það náist að greina forstig krabbameina eða krabbameinin á frumstigi. Við hjá Krabbameinsfélaginu vonum að aukin þátttaka kvenna í skimunum á undanförnum árum haldi áfram því reglubundin þátttaka í skimun er lykilatriði í að skimunin skili þeim árangri sem henni er ætlað,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert