Getum ekki sent komandi kynslóðum reikninginn

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sagði að Íslendingar geti leyft sér að horfa bjartsýnir fram á veg en geti þó ekki leyft sér að halda að allt verði gott á nýjan leik af sjálfu sér.

Guðlaugur Þór var fyrsti ræðumaður Sjálfstæðisflokksins í kvöld, en hann sagði mikilvægt að ná viðspyrnu en ekki væru til neinar töfralausnir. Hann sagði það enga lausn að skuldsetja ríkissjóð heldur þyrfti að skapa verðmæti og auka útflutningstekjur.

„Lífskjörin verða ekki tekin að láni með aukinni skuldsetningu ríkissjóðs. Skuldir hafa nefnilega einn galla, þær þarf að greiða, fyrr eða síðar, og við sem hér erum höfum engan rétt á því að senda komandi kynslóðum reikninginn,“ bætti hann við.

Guðlaugur sagði að Íslendingar væru fríverslunar- og útflutningsþjóð og lífskjör hér standi og falli með því hvernig til tekst að sækja á erlenda markaði. Hann sagði þetta ástæðu þess að hann lagði áherslu á fríverslunarsamning við Bretland í sinni ráðherratíð.

Lífskjarasókn segir Guðlaugur að þurfi að ná til unga fólksins svo það telji hag sínum best borgið á Íslandi, en ekki síður þeirra kynslóða sem hafa skilað sínu. Það gangi ekki að letja eldra fólk til þátttöku í samfélaginu. Hann segir að lykillinn að þessu sé sveigjanleiki.

Guðlaugur bendir á að skerðingar á frelsi einstaklingsins séu réttmætar þegar brýna nauðsyn ber til en þær megi ekki vera umfram tilefni og ekki standa lengur en þörf krefur.  Því sé mikilvægt að heimsfaraldurinn muni ekki hafa þær afleiðingar að hann dragi úr frelsi fólks til langs tíma.

Að lokum sagði Guðlaugur að stefna Sjálfstæðisflokksins væri skýr. „Við viljum greiða leið fólks og fyrirtækja, ekki hefta og letja. Við viljum auka verðmætasköpun til að standa undir velferð og lífskjörum í fremstu röð. Við höfnum þeirri leið sem stjórnarandstaðan hefur lagt til, að taka lífskjörin að láni og senda komandi kynslóðum reikninginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert