Mögnuð endurkoma SA í sigri á SR

Handalögmál í leik kvöldsins.
Handalögmál í leik kvöldsins. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

SA vann frækinn sigur á SR, 7:5, þegar liðin áttust við í úrvalsdeild karla í íshokkíi, Hertz-deildinni, í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.

Gestirnir úr Reykjavík byrjuðu leikinn mun betur og komst í 5:1 forystu.

Áður en önnur lota var úti höfðu heimamenn hins vegar jafnað metin í 5:5.

Í þriðju lotu bætti SA svo við tveimur mörkum til viðbótar og tryggði sér frábæran endurkomusigur.

Hafþór Sigrúnarson skoraði tvö mörk fyrir SA og það gerði Uni Sigurðarson sömuleiðis. Ormur Jónsson, Andri Sverrisson og Gunnar Arason skoruðu svo allir eitt mark fyrir Akureyringa.

Axel Orongan skoraði tvö mörk fyrir SR og Sölvi Atlason, Ævar Arngrímsson og Gunnlaugur Þorsteinsson komust einnig á blað.

SA heldur toppsætinu í deildinni þar sem liðið er með 27 stig eftir tíu leiki. SR kemur þar á eftir með 16 stig eftir 11 leiki.

Fjölnir rekur lestina með aðeins fimm stig eftir 11 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert