Sindri og ÍR skrefi nær úrvalsdeild

Hákon Hjálmarsson og félagar í ÍR eru komnir í 2:0
Hákon Hjálmarsson og félagar í ÍR eru komnir í 2:0 Kristinn Magnússon

Sindri og ÍR eru komin í 2:0 í einvígum sínum í undanúrslitum umspils um sæti í efstu deild karla í körfubolta. Sindri vann Fjölni og ÍR sigraði Þór á Akureyri.

Sindri tók á móti Fjölni á Höfn í Hornafirði í kvöld. Sindri leiddi allan leikinn en Fjölnismönnum tókst að hleypa spennu í viðureignina í 4. leikhluta. Fjölnir náði að minnka muninn í eitt stig þegar 40 sekúndur lifðu af leiknum en Milorad Sedlarevic kláraði leikinn fyrir heimamenn með tveimur vítaskotum undir lok leiksins.

Atkvæðamestir í liði Sindra voru Samuel Prescott með 24 stig og Tómas Orri Hjálmarsson með 17 stig og 7 fráköst. Hjá Fjölni var Viktor Steffensen í sérflokki með 25 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.

Þórsarar tóku á móti ÍR norðan heiða og lauk leiknum með ellefu stiga sigri gestanna, 100:89.

Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson fór hamförum í liði Þórs með 32 stig og 5 fráköst en það dugði ekki til. Stigaskor ÍR dreyfðist aðeins betur en fimm leikmenn voru með yfir tíu stig. Hákon Hjálmarsson skoraði 20 stig, tók 4 fráköst og gaf 7 stoðsendingar í jöfnu liði ÍR.

Liðin mætast næst 1. maí og geta Sindramenn og ÍR-ingar tryggt sér sæti í úrslitum þar sem úr verður skorið hverjir fylgja KR upp í úrvalsdeild að ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert