Einár skotinn til bana í Stokkhólmi

Tónlistarmaðurinn Einar árið 2019.
Tónlistarmaðurinn Einar árið 2019. AFP

Sænski rapptónlistarmaðurinn Einár var skotinn til bana í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar í gærkvöldi. Viðamikil rannsókn er hafin að sögn lögreglu, en árásarmaðurinn, eða mennirnir, ganga enn lausir. 

Einár, sem var 19 ára gamall, rappar á sænsku og hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Hann var t.d. sá listamaður á Spotify-tónlistaveitunni sem naut mestra vinsælda í Svíþjóð árið 2019. 

Frá aðgerðum lögreglu í gærkvöldi.
Frá aðgerðum lögreglu í gærkvöldi. AFP

Hann var skotinn nokkrum sinnum fyrir utan fjölbýlishús skömmu fyrir kl. 23 að staðartíma, um kl. 21 að íslenskum tíma. 

Sjúkraflutningamenn reyndu endurlífgun á staðnum en án árangurs. 

Lögregluborði við götu í Stokkhólmi þar sem árásin átti sér …
Lögregluborði við götu í Stokkhólmi þar sem árásin átti sér stað í gærkvöldi. AFP

Lögreglan hefur hafið morðrannsókn. Venju samkvæmt hefur sænska lögreglan ekki greint frá nafni hins látna, en allir helstu fjölmiðlar landsins hafa birt nafnið á tónlistarmanninum, sem heitir réttu nafni Nils Kurt Erik Einár Grönberg.

Mörg laga Einárs fjalla um lífið á glæpabrautinni, m.a. fíkniefnanotkun og vopn. Hann átti í opinberlega í útistöðum við rapparann Yasin, sem í júlí sl. var dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að hafa átt þátt í að leggja á ráðin að ræna Einári í fyrra. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum en nokkrum vikum síðar var Einári rænt án þess að Yasin hefði komið nálægt því. 

Maður sést hér leggja blóm á götu til að minnast …
Maður sést hér leggja blóm á götu til að minnast Einars. AFP

Að sögn saksóknara var hann beittur ofbeldi og myndir teknar af honum þar sem hann var niðurlægður og beittur fjárkúgun. 

Mannránið var hluti af stærra máli sem varðar 30 sakborninga sem tengjast glæpasamtökum, en fólkið hefur verið sakað um margskonar glæpi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert