Valinn besti leikur allra tíma

Skjáskot/Dark Souls

Verðlaunahátíðin The Golden Joystick Awards er haldin á hverju ári, en þar eru veitt verðlaun í ýmsum flokkum tölvuleikja og öðru sem tengjast þeim. Verðlaun ársins 2021 voru veitt fyrr í vikunni.

Fólkið valdi Dark Souls

Veitt voru verðlaun í tuttugu og tveimur flokkum, en m.a. voru veitt verðlaun fyrir besta leik allra tíma. Leikurinn Dark Souls var valinn besti leikur allra tíma á hátíðinni, en það voru tölvuleikjaunnendur sem sáu um að kjósa í þeim flokki. 

Dark Souls er gefinn út af FromSoftware og kom út árið 2011, en síðan þá hafa fleiri leikir í leikjaröðinni verið útgefnir. Flestir fara fögrum orðum um leikinn og er ljóst að leikurinn á sér marga aðdáendur.

Leikjastjórinn þakkar fyrir sig

„Það er enn óraunverulegt fyrir mér að spilarar völdu Dark Souls, en það er mikill heiður. Ég var snortinn yfir verðlaununum, og munum við hjá FromSoftware halda áfram að gera áhugaverða og dýrmæta leiki fyrir aðdáendur. Takk fyrir!“ er haft eftir Hidetaka Miyazaki, leikjastjóra Dark Souls.

Vakti athygli að leikurinn Elden Ring var valinn eftirsóttasti leikurinn, en hann kemur út í febrúar 2022 og er gefinn út af FromSoftware, sem einnig gaf út Dark Souls. Hægt er að sjá alla flokka og verðlaunahafa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert