Danska félagið greinir frá smiti íslenska landsliðsmannsins

Elías Rafn Ólafsson, rauðklæddur, á æfingu 21-árs liðsins á dögunum.
Elías Rafn Ólafsson, rauðklæddur, á æfingu 21-árs liðsins á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danska knattspyrnufélagið Fredericia hefur tilkynnt á heimasíðu sinni að aðalmarkvörður liðsins, Elías Rafn Ólafsson, hafi smitast af kórónuveirunni þegar íslenska 21-árs landsliðið í knattspyrnu kom saman í vikunni.

Elías varði mark íslenska liðsins þegar það sigraði Lúxemborg 2:0 í Esch-sur-Alzette á þriðjudaginn.

Fram kemur að Elías hafi ekki sýnt nein einkenni og sé frískur en hafi verið settur í einangrun til að forðast smit. Hann spili því ekki með liðinu gegn Vendsyssel í dönsku B-deildinni á sunnudaginn.

„Þetta er að sjálfsögðu leiðinlegt fyrir Elías en sem betur fer er hann einkennalaus þannig að vonandi kemur hann fljótt aftur inn í hópinn," segir Stig Pedersen íþróttastjóri Fredericia á heimasíðu félagsins. Elías er þar í láni frá dönsku meisturunum Midtjylland og hefur spilað alla sex leiki liðsins í dönsku B-deildinni á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert