Spennt að geta haldið almennilegt partí

Búist er við 2000-3000 stúdentum á Októberfest. Viðburðurinn er haldinn …
Búist er við 2000-3000 stúdentum á Októberfest. Viðburðurinn er haldinn í Vatnsmýrinni. Ljósmynd/Októberfest

Hátíðin Októberfest, sem Stúdentaráð Háskóla Íslands stendur fyrir, fer fram fyrstu helgina í september. Skipuleggjandi hátíðarinnar segir stúdenta gífurlega spennta fyrir helginni en síðustu tvö ár hefur henni verið aflýst vegna heimsfaraldursins Covid-19.

„Við erum heldur betur að fara að mæta tvíefld, ef ekki þríefld, til leiks. Við finnum að stúdentar eru gífurlega spenntir. Þetta er líka svo mikilvægt fyrir stúdenta því það hafa margir viðburðir dottið út og virkni nemendafélaga verið lítil. Því erum við mjög spennt að geta tekið á móti 2.000 til 3.000 stúdentum og haldið almennilegt partí,“ segir Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir, sem kemur að skipulagningu Októberfest, í samtali við mbl.is.

Forsala miða hófst í hádeginu í dag og hvetur Guðný stúdenta til að næla sér í miða áður en verðið hækkar.

„Hún byrjar gífurlega vel þannig að við erum mjög bjartsýn. Það verður takmarkað upplag miða á þessu forsöluverði þannig að ég hvet alla til að næla sér í miða sem fyrst.“

Birgitta Haukdal er meðal þeirra sem kemur fram á viðburðinum.
Birgitta Haukdal er meðal þeirra sem kemur fram á viðburðinum. Ljósmynd/Októberfest

Vilja hafa kynjahlutföllin jöfn

Alls er búið að staðfesta um tuttugu tónlistaratriði en að sögn Guðnýjar verða þau fleiri. „Við erum alltaf að bæta við, í gegnum tíðina höfum við jafnvel verið að bæta við atriðum degi fyrir hátíðina.“

Síðustu ár hefur mikið borið á umræðu um hlutfall kvenkyns flytjenda á tónlistarviðburðum. Hún fór síðast hátt í júlí þegar viðburðurinn Rokk í Reykjavík var kynntur en eingöngu karlkyns tónlistarmenn voru á dagskrá hátíðarinnar. Skipuleggjendur viðburðarins svöruðu gagnrýninni og sögðu að eftir ætti að tilkynna leynigestinn, sem væri kona, en bættu jafnframt við tveimur kvenkyns tónlistaratriðum.

Af þeim sautján tónlistaratriðum sem hafa verið kynnt á Októberfest eru átta þeirra kvenkyns flytjendur eða hljómsveitir. Guðný segir það markmið Októberfest að kynjahlutföllin séu jöfn.

„Það er mjög meðvituð ákvörðun hjá Októberfest að reyna að hafa kynjahlutföllin alltaf jöfn. Við erum líka alltaf að reyna að gefa ungum konum vettvang til þess að koma fram. Við bókum þekktar tónlistarkonur en líka konur sem eru minna þekktar til að gefa þeim þennan góða vettvang til að koma sinni tónlist á framfæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert