Veiran aftur komin á kreik í Kína

Grímuklætt fólk á ferli í Kína. Áður hefur Kínverjum tekist …
Grímuklætt fólk á ferli í Kína. Áður hefur Kínverjum tekist að kveða niður litlar hópsýkingar með víðtækum skimunum. AFP

Íbúar kínversku borgarinnar Kashgar í Xinjiang-héraði eru nú skimaðir fyrir kórónuveirunni eftir að smit fóru að breiðast út um héraðið. Um 4,7 milljónir undirgangast nú skimun og hafa 138 einkennalausir greinst hingað til. Skimunin hófst á laugardag. 

Vel hefur gengið að halda faraldrinum niðri í Kína, þar sem faraldurinn gerði fyrst vart við sig fyrir um ári. Þó eru litlar hópsýkingar enn á ferli í landinu. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Í Xinjang búa úígúrar, minnihlutahópur sem helst samanstendur af múslimum. Mannréttindahópar segja úígúra eiga undir högg að sækja í Kína og sæta ofsóknum. 

Skólum í Kashgar hefur verið lokað og íbúum borgarinnar er óheimilt að yfirgefa hana nema þeir framvísi vottorði um að þeir séu ekki smitaðir. 

Einkennalausir ekki taldir með

Einkennalaus kona sem vann í textílverksmiðju var sú fyrsta sem smitaðist í þessari hópsýkingu í Kashgar. Smitið var hið fyrsta sem var staðfest í Kína á tíu daga tímabili. Víðtæk skimun leiddi svo í ljós 137 önnur smit hjá einkennalausum. 

Einkennalaus tilfelli eru ekki talin með í opinberum tölum yfir smitfjölda í Kína. Þar hafa 85.810 smitast af kórónuveirunni og 4.634 fallið frá, samkvæmt opinberum tölum. 

Síðdegis í gær höfðu 2,8 milljónir verið skimaðar í Kashagar og mun skimuninni ljúka á næstu tveimur dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert