Fótbolti

Annað tapið í röð eftir að titillinn var í höfn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Robert Lewandowski skoraði eina mark Börsunga í kvöld.
Robert Lewandowski skoraði eina mark Börsunga í kvöld. Angel Martinez/Getty Images

Nýkrýndir Spánarmeistarar Barcelona máttu þola 3-2 tap er liðið heimsótti Real Valladolid í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Var þetta annað tap Börsunga í röð eftir að liðið tryggði sér titilinn.

Börsungar hafa heldur slakað á í deildinni eftir að liðið tryggði sér spænska meistaratitilinn, enda hefur liðið ekki lengur að neinu að keppa.

Real Valladolid er hins vegar enn í harðri fallbaráttu og því þurfti liðið nauðsynlega á stigi, eða stigum, að halda í kvöld til að lyfta sér upp úr fallsæti.

Heimamenn í Real Valladolid komust yfir strax á annarri mínútu leiksins þegar Andreas Christensen varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net áður en Cyle Larin tvöfaldaði forystu liðsins með marki úr vítaspyrnu tuttugu mínútum síðar.

Gonzalo Plata skoraði svo þriðja mark heimamanna þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka, en Robert Lewandowski klóraði í bakkann fyrir Börsunga á lokamínútum leiksins.

Niðurstaðan því 3-1 sigur Real Valladolid sem nú situr í 17. sæti deildarinnar með 38 stig þegar liðið á einn leik eftir á tímabilinu, þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið, en þar eiga önnur lið tvo leiki eftir. Liðið þarf því sigur í seinasta leik tímabilsins til að tryggja áframhaldandi veru í deildinni án þess að þurfa að treysta á önnur úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×