„Ég vissi náttúrulega ekkert af þessari orðuveitingu eða hvað til stæði, ég fékk bara símtal rétt fyrir jól og var spurður hvort ég væri á landinu.“ Þetta segir Sigurður Harðarson, rafeindavirki og björgunarsveitarmaður, í samtali við mbl.is en Sigurður var um áramótin sæmdur fálkaorðunni fyrir óeigingjörn störf sín í þágu þjóðarinnar við að setja upp og hlúa að fjölda fjarskiptamannvirkja víða um land.
„Þetta var auðvitað gleðifrétt, þarna er verið að viðurkenna störf mín í þágu almannaheilla eins og það heitir held ég,“ segir Sigurður af fyrstu viðbrögðum sínum við tíðindunum en störf hans á þessum vettvangi hafa að langmestu leyti verið sjálfboðavinna í þágu björgunarsveita landsins en Sigurður hefur verið félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík síðan 1962.
„Þegar þetta var fyrir opinbera aðila fékk maður þó auðvitað greitt,“ segir Sigurður sem í 30 ár starfrækti fyrirtæki sem þjónustaði fjarskiptabúnað og allmargir lesenda ættu að hafa heyrt um en þar er auðvitað hin nafntogaða Radíóþjónusta Sigga Harðar sem var með um 80 prósenta markaðshlutdeild fyrir fjarskipti í bifreiðum um nokkurra ára skeið auk þess að þjónusta alla opinbera aðila.
Sigurður lætur vel af orðuveitingunni sjálfri. „Maður mætti á Bessastaði og þar tók forsetinn á móti okkur, bauð okkur velkomin og hélt ræðu um orðuveitinguna. Við vorum svo kölluð upp eftir stafrófsröð, orðan hengd á okkur og eftir það teknar myndir og skálað í kampavíni,“ lýsir Sigurður þessari árlegu athöfn þar sem framúrskarandi synir og dætur þjóðarinnar að embættismanna yfirsýn hljóta viðurkenningu hvers kyns verka sinna eða athafna.
„Þetta byrjaði nú eiginlega bara þegar ég var tólf ára, þá smíðaði ég mitt fyrsta útvarpstæki og svo hélt þetta bara áfram og ég fór að læra þessa iðn sem þá hét útvarpsvirkjun,“ rifjar Sigurður upp, inntur eftir upphafi síns langa ferils en á sínum tíma var útvarpsvirkjun, nú löngu horfin grein að nafninu til, kennd við Iðnskólann í Reykjavík.
Þetta var árið 1956 en Sigurður er lýðveldisbarn, fæddur árið 1944. „Þá var apparat sem hét Námsflokkar Reykjavíkur og þar voru haldin námskeið fyrir unglinga og börn á fermingaraldri. Ég fór á námskeið þar tólf ára gamall og smíðaði þá þetta fyrsta útvarpstæki og fljótlega smíðaði ég annað en það var bara á eigin vegum, ég sökkti mér niður í þetta,“ segir Sigurður af áhugamáli sem hann getur illa skýrt hvaðan kom.
„Það veit ég ekki, enginn í minni fjölskyldu hafði hundsvit á útvarpstækjum nema bara til að hlusta á þau,“ svarar hann spurningu um uppruna útvarpsáhuga síns og hlær við. Hann lauk sveinsprófi í greininni eftir fjögurra ára nám á Viðtækjavinnustofunni sem þá var til húsa á Laugavegi 178.
„Ég gæti nú reyndar trúað því að það sem hafi kveikt áhuga minn hafi verið að faðir minn var í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Hann vann hjá Flugmálastjórn og það æxlaðist einhvern veginn þannig að margir starfsmenn Flugmálastjórnar gengu í Flugbjörgunarsveitina þegar hún var stofnuð 1950. Ég sem krakki fór stundum með honum á æfingar, hann var bifvélavirki, reyndar ekki með réttindi en vann við það, og ég held ég hafi bara heillast af því þegar menn voru að prófa þessar talstöðvar, Flugbjörgunarsveitin var nú fyrsta björgunarsveitin sem eignaðist talstöðvar,“ rifjar Sigurður upp en faðir hans var Hörður Sigurðsson svo því sé haldið til haga.
Hann kveður ástæðuna fyrir þessari talstöðvaeign Flugbjörgunarsveitarinnar vera þá að margir starfsmanna Flugmálastjórnar á þeim tíma gengu í sveitina, meðal annars þeir sem störfuðu á radíóverkstæði hennar. „Þar var til mikið af fjarskiptatækjum sem komu frá sölunefndinni [sölunefnd varnarliðseigna] og ofan af Keflavíkurvelli, talstöðvar og móttakarar úr flugvélum og fleira. Þetta var sett í fyrsta bíl Flugbjörgunarsveitarinnar sem pabbi keyrði og ég fór oft með honum,“ rifjar Sigurður upp.
Sú talstöð var engin vasastöð eins og nú tíðkast heldur var sérstakur talstöðvarklefi í bílnum, Bedford-herbíl frá því herinn settist að á Íslandi. Samtals vegur þessi stöð, sendir og viðtækin rúmlega hundrað kíló. „Ég hef trú á því að þetta hafi kveikt áhugann hjá mér því ég heillaðist af þessum búnaði,“ viðurkennir Sigurður og nefnir í framhaldinu þá skemmtilegu staðreynd að eftir að hann tók að safna fjarskiptatækjum hafi honum tekist að finna öll þessi gömlu tæki frá Flugbjörgunarsveitinni og sett þau upp á Fjarskiptasafninu austur í Skógasafni, sem hann hefur veg og vanda af.
„Þar er hægt að sjá sögu Flugbjörgunarsveitarinnar í fjarskiptabúnaði ásamt öðru,“ segir Sigurður en á safninu gefur meðal annars að líta einn fjarskiptabíl sveitarinnar sem hann innréttaði á sínum tíma, en þeir eru þrír í gegnum tíðina. „Flugbjörgunarsveitin var stofnuð í framhaldinu af því þegar Geysir fórst á Vatnajökli,“ segir Sigurður af flugslysi sem vakti gríðarlega athygli 14. september 1950 þegar farþegaflugvélin Geysir TF-RVC fórst á Vatnajökli á leið heim frá Lúxemborg, án farþega en með sex manna áhöfn innanborðs sem öll lifði slysið af.
„Þá var engin björgunarsveit sem sérhæfði sig í björgun úr flugslysum, þú þarft að vita eitthvað um flugvélar þegar þú kemur að flugslysi, til dæmis hvar höfuðrofinn er til að taka rafmagn af þeim auk þess að gæta að bensínleka, þú veður ekkert að flugvél eins og strönduðu skipi, íkveikjuhættan er svo mikil. Við fengum þjálfun í þessu og markmið Flugbjörgunarsveitarinnar var að sérhæfa menn í björgun á þessu sviði,“ segir Sigurður frá en hann gekk í sveitina átján ára gamall og er þar enn.
„Núna hefur maður bara þann titil að vera lávarður sem kallað er. Við erum skráðir félagar áfram en erum ekki á útkallslista, þó alltaf tilbúnir að hjálpa til við húsið og búnað og svoleiðis, en við hlaupum ekki á fjöll lengur, ég er að verða áttræður og við erum allir á því reki,“ segir hann og hlær við.
Sigurður hefur unnið mikið við að setja upp móðurstöðvar svokallaðar fyrir lögreglu og slökkvilið og björgunarsveitir. „Eins og er til dæmis í vaktstöð siglinga í Skógarhlíðinni í dag en áður var þetta mjög mikið hjá félögum og fyrirtækjum, þau voru þá bara með sína stöð inni á skrifstofu og gátu talað við sína bíla, ég þjónustaði svona búnað hjá fyrirtækjum, seldi hann, setti hann í bíla og gerði við hann,“ segir Sigurður af Radíóþjónustu Sigga Harðar og starfsemi þar.
Endurvarpsstöðvar á fjöllum tóku einnig ríflegan toll af tíma hans svo sem sjá má af myndum með þessu viðtali og voru mikið til fyrir ýmsa opinbera aðila. Á hinn bóginn var svo um stöðvar fyrir björgunarsveitirnar að ræða sem mest var sjálfboðavinna og íslenska ríkið sæmdi Sigurð verðskuldaðri fálkaorðu fyrir.
„Við höfum sett þær upp á 60-70 fjöllum á Íslandi og þær eru drifnar af sólinni, með rafgeymum og sólarsellum. Þessar stöðvar hannaði ég og smíðaði. Ég fékk náttúrulega borgað fyrir smíðina og efnið en uppsetning og þjónusta við þessar stöðvar var alltaf sjálfboðavinna og er það enn,“ segir Sigurður frá. En hvað fæst hann við nú í bjartri sól eftirlaunaáranna?
„Ég tek að mér eitt og eitt smáverkefni fyrir vini og kunningja ef það er eitthvað gamalt og gott sem aðrir vilja ekki sinna en annars er ég nú bara að leika mér eins og maður segir,“ svarar Sigurður. Sá leikur er þó að sjálfsögðu framhald áratugalangs ævistarfs og hefur Sigurður einkum fengist við að safna og varðveita gömul fjarskiptatæki og útvarpstæki.
„Fyrir tveimur árum var langbylgjustöðin uppi á Vatnsenda rifin og það hús átti að verða að safni, það stóð alltaf til, og var búið að safna gífurlegu magni af útvarpstækjum þarna inn. Svo kom sú staða upp að ríkið seldi Kópavogsbæ Vatnsenda og húsið var rifið og þá þurfti að bjarga þessum útvarpstækjum sem eru saga Íslendinga í útvarpi frá því tekið var að senda út útvarpsdagskrá á landinu 1926,“ segir Sigurður og kom þá í hans hlut að bjarga safninu frá förgun ásamt nokkrum félögum hans úr sama fagi, hreinsa út úr húsinu, flokka og koma á vörubretti.
„Nú erum við að vinna að því að fara yfir þessi tæki, gera þau sýningarhæf og draumurinn er að koma upp safni í Skógasafni um sögu Íslendinga í útvarpstækni sem nær hundrað árum núna 2026, en annars þegar Ríkisútvarpið verður hundrað ára 2030. Á meðan ég rak verkstæðið mitt enduðu líka hjá mér gömul fjarskiptatæki sem voru að koma úr bílum og fleiru og ég geymdi og er nú orðið mjög stórt safn af fjarskiptatækjum, þar er í raun að finna sögu Íslendinga í talstöðvum,“ segir Sigurður af söfnunaráhuga sínum.
Árið 2009 gaf hann Skógasafni þetta safn og setti það upp þar. „Ég er alltaf þar með annan fótinn að sýsla við safnið, bæta inn í, laga merkingar og setja hljóð í talstöðvarnar frá þeim tímum sem þær voru í gangi, ég á ýmsar upptökur og spila í þessum tækjum það sem var í gangi á hverjum tíma,“ segir hann frá.
Við nálgumst endalok forvitnilegs spjalls við fálkaorðuhafann og fjarskiptagoðsögnina Sigurð Harðarson. Fjarskiptatækin sem hann kynntist fyrst sem pjakkur hafa væntanlega verið býsna einföld miðað við tækni nútímans?
„Já já, manni finnst ekkert varið í þessi tæki í dag, þetta eru bara dauðar plötur og tölvubúnaður,“ segir Sigurður og hlær við. „Ég byrja í þessu í lok árs 1960 og ég er svo heppinn að meistarinn minn var einn af þeim fyrstu á Íslandi og byrjaði að þjónusta útvarpstæki hjá Ríkisútvarpinu árið 1930. Hann tók alltaf við þessum gömlu tækjum svo ég kynntist tækjum frá fyrstu dögum útvarps á Íslandi og fékk að meðhöndla alla flóru tækninnar frá því áður en ég fæddist og til dagsins í dag,“ segir hann.
Margt fleira væri hægt að tína hér til, svo sem myndavélar sem Sigurður smíðaði í heitavatnsborholur auk þess sem hann hefur starfað á Grænlandi, í Færeyjum og Noregi, meðal annars smíðað búnað fyrir norsku lögregluna til að tengja saman Tetra- og VHF-fjarskiptakerfi og sett upp endurvarpsstöðvar fyrir vinnubúðir Ístaks víða svo eitthvað sé nefnt.
En hvað skyldi þá standa upp úr á þessum ferli öllum?
„Ég veit það ekki,“ svarar Sigurður eftir stutta umhugsun, „þetta er búið að vera svo fjölþætt líf hjá mér. Ég hef fengið þessi tækifæri, að geta smíðað og leikið mér og þróað þennan tækjabúnað, ferðast um fjöll og firnindi við að setja þetta upp, bæði sem tæknimaður og björgunarsveitarmaður. Eitt af þessum skemmtilegu verkefnum var að setja upp myndavél í Eldey sem ég smíðaði búnaðinn utan um og þjónusta enn í dag, reyndar í sjálfboðavinnu. Svo maður hefur komið víða við þannig séð,“ segir Sigurður Harðarson, Siggi Harðar, að lokum af ævintýralegum útvarps-, fjarskipta- og björgunarsveitarferli sem forseti Íslands veitti honum hina æðstu viðurkenningu fyrir um áramótin.