Vonbrigði að yfirgefa ekki Liverpool

Nat Phillips (t.v.) í baráttunni við Oliver Burke í leik …
Nat Phillips (t.v.) í baráttunni við Oliver Burke í leik Liverpool gegn Sheffield United síðastliðna helgi. AFP

Nat Phillips, varnarmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að hafa ekki komist frá félaginu síðastliðið sumar. Furðulegt yfirstandandi tímabil hafi þó breytt þeirri skoðun hans.

„Þegar undirbúningstímabilinu lauk var allt útlit fyrir að ég væri á förum annað með það fyrir augum að fá að spila fleiri leiki og koma ferlinum mínum af stað, og fylgja þar með eftir láninu [hjá Stuttgart] á síðasta tímabili,” sagði Phillips í samtali við Sky Sports.

Hann endaði á að vera um kyrrt. „Þegar það varð ljóst voru allir leikfærir og það var ekkert útlit fyrir að það kæmu upp neinar aðstæður þar sem ég væri að fara að spila fyrir aðallið Liverpool á þessu tímabili.

Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum því ég hlakkaði til þess að fara eitthvað til þess að spila fótbolta og koma ferlinum mínum af stað, en augljóslega breyttust hlutirnir,“ bætti Phillips við.

Það má með sanni segja þar sem allir þrír aðalmiðverðir Liverpool eru frá út tímabilið, þeir Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip.

Þá hefur Fabinho, varnartengiliðurinn sem hefur leyst af í vörninni megnið af tímabilinu, einnig misst af fjölda leikja vegna meiðsla. Miðvallarleikmaðurinn Jordan Henderson hefur einnig hlaupið í skarðið en verður frá vegna meiðsla í sex til átta vikur.

Tveir miðverðir voru svo keyptir í janúarglugganum, Ozan Kabak og Ben Davies, og hefur sá síðarnefndi ekki enn þá spilað sinn fyrsta leik vegna meiðsla.

„Ég held að enginn hafi getað séð fyrir hvað myndi gerast, þetta hafa verið nokkuð dæmigerð atvik sem sýna hversu stórundarlegur fótbolti getur stundum verið. Ég held að þegar aðeins mánuður var liðinn af tímabilinu hafi ég spilað minn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Phillips að lokum, en hann hefur spilað átta leiki í deildinni á tímabilinu.

Þess má geta að Nat Phillips er guðsonur Guðna Bergssonar, formanns KSÍ, en Guðni lék um árabil með föður hans, Jimmy, hjá Bolton Wanderers, þar sem Nat er uppalinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert