Óskar eftir upplýsingum um hvort börn séu lokuð inni í skólum

Umboðsmaður hefur áður óskað eftir upplýsingum um sama mál
Umboðsmaður hefur áður óskað eftir upplýsingum um sama mál mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður Alþingis óskar nú á nýjan leik eftir upplýsingum, frá bæði mennta- og menningarmálaráðuneytinu og nokkrum skólaskrifstofum, um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum grunnskóla. Þetta kemur fram á vef Umboðsmanns Alþingis.

Í júní í fyrra óskaði umboðsmaður eftir sambærilegum upplýsingum en í kjölfar þeirra svara sem honum bárust var ákveðið að aðhafast ekki frekar að sinni. Síðan hafa hins vegar borist ábendingar frá foreldrum um að börn hafi verið lokuð inni í sérstökum rýmum, jafnvel einsömul.

Það ásamt nýlegri opinberri umræðu um að dæmi séu um að börn séu lokuð inni í ákveðnum skólum og verklag í tengslum við hana er kveikjan að því að hreyfa við málinu á ný.

Umboðsmaður spyr í þessu sambandi hvort borist hafi ábendingar, kvartanir eða kærur vegna slíkra mála frá síðasta svari. Hvort vart hafi orðið við þessa framkvæmd í skólum og hvort vitneskja sé um að í einhverjum grunnskólum sé fyrir hendi almennt skráð verklag um hana.

Umboðsmaður óskar eftir svörum frá stjórnvöldum fyrir 1. nóvember næstkomandi. Sérstaklega er tekið fram í bréfunum sem send voru að berist  upplýsingar sem gefi tilefni til, kunni að verða farið í vettvangsheimsóknir í tiltekna skóla.

Bæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og umboðsmanni barna var sent afrit af bréfunum til upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert