Heimilt að leigja út veiðihús utan veiðitímabils

Fossatún í Borgarfirði
Fossatún í Borgarfirði Ljósmynd/Guðrún Vala

Héraðsdómur Vesturlands sýknaði í dag Veiðifélag Grímsár og Tunguár af kröfum landeiganda jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð og Fossatún ehf. Kröfðust stefnendur þess að viðurkennt yrði með dómi að Veiðifélagi Grímsár og Tunguár væri óheimilt að selja veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð á leigu, til almenns gisti- og veitingahúsarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum.

Var stefnendum gert að greiða stefnda 1,8 milljónir í málskostnað, óskipt.

Langvarandi ágreiningur hafi verið uppi milli stefnenda og stefnda um heimildir veiðifélagsins til útleigu á veiðihúsinu að Fossási utan skilgreinds veiðitíma. Töldu stefnendur að almennur veitinga- og gistirekstur utan veiðitímans geti ekki talist til skyldrar starfsemi eins og gerist um veiðitímann.

Ekki brotið gegn eigna- og félagarétti

Taldi dómurinn að með setningu nýs lagaákvæðis í e-lið 1. mgr. 37. gr laga, um að veiðifélagi sé heimilt að ráðstafa eign félagsins utan veiðitíma til skyldrar starfsemi, væri komin skýr lagastoð fyrir því að veiðifélag geti tekið ákvörðun um slíkt, án þess að samþykki allra veiðiréttarhafa þurfi til að koma. Má það lesa af athugasemdum við nýja ákvæðið í greinargerð frumvarps laganna.

Því var ekki fallist á það með stefnendum að setning ákvæðisins brjóti með nokkrum hætti gegn eignarréttar- og félagafrelsisákvæðum stjórnarskrarinnar, líkt og stefndu héldu fram. Var ekki heldur séð að ákvæði samkeppnislaga standi í vegi fyrir gjörðum stefnda. Var stefndi sýknaður og stefnendum gert að greiða 1.800.000 krónur í málskostnað, óskipt.

Dómur héraðsdóms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert