Leyfa dánaraðstoð fyrir börn á aldrinum 1 til 12

Hugo de Jonge, heilbrigðisráðherra Hollands.
Hugo de Jonge, heilbrigðisráðherra Hollands. AFP

Yfirvöld í Hollandi hafa samþykkt fyriráætlanir um að heimila dánaraðstoð fyrir langveik börn á aldinum eins árs til tólf ára. 

Heilbrigðisráðherra Hollands, Hugo de Jonge, kynnti áætlunina í dag og sagði að reglubreytingin gæti komið í veg fyrir „óbærilegar og vonlausar“ þjáningar barna. 

Dánaraðstoð er í dag lögleg í Hollandi fyrir börn eldri en tólf ára liggi samþykki sjúklings og foreldra hans fyrir. Dánaraðstoð er einnig lögleg fyrir börn yngri en eins árs með samþykki foreldra. 

Reglubreytingin hefur verið gríðarlega umdeild og hefur hún verið til umræðu innan fjögurra flokka samsteypustjórnar Hollands í fleiri mánuði. 

Jonge segir að um fimm til tíu börn gætu fallið undir nýju regluna árlega. Reglan hefur ekki í för með sér lagabreytingar, en læknar sem veita börnum á þessum aldri dánaraðstoð verða ekki sóttir til saka. 

Samþykki foreldra verður að liggja fyrir svo hægt sé að veita þessum aldurshóp dánaraðstoð auk samþykkis tveggja lækna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert