Handtakan ekki orsök hjartastoppsins

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfu um skaðabótaksyldu vegna handtöku sem fram fór árið 2010 og staðfesti þar með sýknudóma úr héraði og við Landsrétt. Stefnandi fór í hjartastopp við handtöku lögreglu og hlaut dreifðan heilaskaða fyrir vikið. 

Stefnanda lánaðist ekki að sýna fram á að orsakatengsl fyndust milli handtöku hans og hjartastoppsins og var frekar talið líklegt að ástand mannsins við handtöku og ofsafengin viðbrögð hans hafi valdið hjartastoppi. 

Í málinu lágu fyrir fjórar matsgerðir sérfræðinga um orsakir þess að hjarta A hætti að slá. Af þeim var ráðið að ástand A þegar hann var handtekinn hafi verið frumorsök þess að hjarta hans stöðvaðist og að ofsafengin viðbrögð hans við handtökunni hafi átt þátt í eða aukið líkurnar á hjartastoppinu. Matsmenn voru hins vegar ekki sammála um hvort og þá hversu líklegt væri að hjarta A hefði stöðvast enda þótt ekki hefði komið til handtökunnar. Var það mat héraðsdóms og Landsréttar, sem skipaðir höfðu verið sérfróðum meðdómsmönnum, að A hefði ekki lánast sönnun um orsakatengsl á milli handtöku og líkamstjóns og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Allur málskostnaður var látinn niður falla en gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar af 900 þúsund krónur sem greiddar eru lögmanni stefnanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert