Samningsstaða veikari án samstöðu

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að miklu betra væri ef verkalýðshreyfingin stæði betur saman en hún gerir nú.

Nefnir hann þá sameiginlegar kröfur gagnvart ríkinu, gagnvart Samtökum atvinnulífsins og önnur mál sem séu á vettvangi hreyfingarinnar.

„Samningsstaða okkar er náttúrlega veikari þegar heltist úr lestinni. Ég hefði viljað sjá hreyfinguna standa betur saman, öllum til hagsbóta,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

En nú gekkst þú sjálfur í burtu með þitt fólk á sínum tíma?

„Já mikil ósköp, en það sem var í boði var skammtímasamningur og eitthvað sem sem við gátum einfaldlega ekki sætt okkur við,“ segir hann og kveðst alla tíð hafa bent á tækifærin sem verkalýðshreyfingin hafði til þess að stíga fram með sameinaðri hætti.

„Þótt við séum ólík stéttarfélög og með ólíkar kröfur, þá eru sameiginlegir hagsmunir fjölmargir, bæði í öðrum kröfum gagnvart okkar viðsemjendum og sömuleiðis stjórnvöldum. Þar hefði ég viljað sjá meiri samheldni.“

Sorgmæddur og dapur

Bæði Ragnar og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar lýstu vonbrigðum með samning Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins eins og fram hefur komið.

Í kjölfar þess lýsti Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasamningsins því yfir að hann væri bæði sorg­mædd­ur og dap­ur að sjá „fólk sem ég taldi vera góða vini mína stinga mig í bakið“ vegna nýs kjara­samn­ings SGS og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins.

„Ég hef ekki tjáð mig efnislega um samninga annarra, og tel það ekki í mínum verkahring að tjá mig um innihald samningsins sem SGS gerir. Það er alltaf á endanum félagsfólks þeirra félaga sem skrifa undir að taka endanlega afstöðu til hans,“ segir Ragnar Þór.

Ekki hægt að heimfæra samninginn

„En ég hef líka sagt að það sé ekki hægt að heimfæra þennan samning á VR þar sem við erum, eins og öll önnur félög, með okkar frjálsa samningsrétt og kröfurnar okkar eru bara allt annars eðlis heldur en starfsgreinafélaganna,“ bætir hann við en segist að öðru leyti ekki vilja tjá sig um orð Vilhjálms.

Verkefnið sem við í VR stöndum frammi fyrir varðandi framfærsluvanda okkar félagsmanna er hreinlega af þeirri stærðargráðu að það er erfitt að ná utan um það með bara einu atriði, eða launaliðnum, í kjarasamningum. Það þarf meira að koma til og þess vegna hef ég talið heppilegra að hreyfingin væri meira sameinuð í kringum þessa vinnu.“

Bera ekki allir samt einhverja ábyrgð á því að staðan sé svona?

„Ég ætla ekki að benda í einhverjar áttir hvar ábyrgðin liggur, en auðvitað hefði verið heppilegra að mínu mati, að hreyfingin hefði verið meira samstiga í gegnum þessa vinnu.

Það er meiri slagkraftur eftir því sem fleiri standa saman og eftir því sem færri eru í hópnum til að gera kröfur um einhverjar kerfisbreytingar eða annað slíkt, það má alveg leiða að því líkum að útkoman verði ekki eins góð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert