Eldsvoðinn kemur ekki í veg fyrir kennslu

Eldur kom upp í Borgaskóla í nótt.
Eldur kom upp í Borgaskóla í nótt. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Kennsla fer fram samkvæmt stundaskrá í Borgaskóla í Grafarvogi í dag en eldur kom upp í húsakynnum skólans í nótt. 

Eldurinn kviknaði í leirofni í list- og verkgreinahúsi skólans sem er afmarkað húsnæði. Það verður lokað í dag og mun myndmennt og önnur listgreinakennsla færast yfir í heimastofur nemenda eins og hægt er.

Að öðru leyti verður þó hægt að kenna í húsakynnum Borgaskóla.

Mögulega tjón á raflögnum

Að sögn Árnýjar Ingu Pálsdóttur skólastjóra Borgaskóla mun dagurinn fara í að meta tjónið og hve langan tíma það mun taka að koma húsnæðinu aftur í kennsluhæft ástand. Enn er verið að þurrka upp vatnið eftir að úðakerfið fór í gang og hefur mögulega orðið tjón á raflögnum. Þá hafi blessunarlega engar skemmdir orðið á listaverkum nemenda. 

Árný segir nemendur yfirvegaða og afar skilningsríka á þær takmarkanir sem ríkja á skólastarfi með tilliti til list- og verkgreina.  

Kveðst hún sömuleiðis ekki hafa orðið var við miklar áhyggjur foreldra. Mun hún þó senda tölvupóst á foreldra þar sem þeir verða upplýstir um stöðuna jafn óðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert