126 konur leggja á Kvennadalshnúk

Hópurinn hefur æft stíft að undanförnu.
Hópurinn hefur æft stíft að undanförnu. Ljósmynd/Soffía G. Sigurgeirsdóttir

Vaskur hópur 126 kvenna er í þann mund að leggja á Hvannadalshnúk í Öræfajökli, hæsta fjall landsins, eða Kvennadalshnúk eins og hann þær kalla tindinn af þessu tilefni.

Í hópnum er valin kona í hverju rúmi, en meðal göngukvenna eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður, Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Lagt verður í hann klukkan 23 í kvöld og áætlað að fyrstu konur toppi hnúkinn um klukkan sjö í fyrramálið og aftur niður síðdegis á morgun. Þá verður hins vegar ekki lagst upp í rúm því þegar niður er komið bíður þeirra partí þar sem plötusnúðurinn Natalie Gunnarsdóttir mun sjá um að halda uppi stuðinu.

Göngukonur safna fyrir nýrri krabbameinsdeild Landspítalans sem meðal annars styrkir …
Göngukonur safna fyrir nýrri krabbameinsdeild Landspítalans sem meðal annars styrkir skjólstæðinga styrktarfélaganna LÍF og Krafts. Ljósmynd/Soffía G. Sigurgeirsdóttir

Soffía S. Sigurgeirsdóttir, ein göngukvennanna, segir að flestar séu þær að ganga svo krefjandi göngu í fyrsta sinn en þær hafa æft stíft undanfarnar vikur undir stjórn Brynhildar Ólafsdóttur og Vilborgar Örnu Gissurardóttur pólfara, sem eru leiðangursstjórar í göngunni.

„Þetta er sögulegt enda í fyrsta sinn sem svona stór hópur kvenna gengur upp á þennan hæsta tind. Og sennilega er þetta stærsti hópur sem hefur farið þessa dagleið,“ segir hún. Hópnum er skipt niður á 18 línur og hver þeirra leidd af einni jöklaleiðsögukonu, en landslið jöklaleiðsögukvenna er með í för.

Í leiðinni safna þær peningum til styrktar nýrri krabbameinsdeild Landspítalans, en hægt er að styrkja söfnunina með því að leggja inn á reikning 1161-26-9900, kt. 501219-2090, eða með því að senda á símanúmerið 789-4010 í AUR-appinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert