Kalt og fámennt á gosslóðum

Mun færri nýttu páskadaginn í ferðalag en aðra daga liðinnar …
Mun færri nýttu páskadaginn í ferðalag en aðra daga liðinnar viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rólegt hefur verið við gosstöðvarnar í Geldingadal í morgun. Opnað var inn á svæðið klukkan sex og voru þá um fimmtán bílar á bílastæðinu. „Rúturnar eru byrjaðar að koma en þær eru illa nýttar,“ segir Sigurður Bergmann, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum en hann er vettvangsstjóri á gosstöðvum.Hleypt verður inn á svæðið til klukkan 18 í kvöld, eins og síðustu daga, og byrjað að rýma klukkan 22.

Mun færri fóru á gosslóðir í gær, á páskadag en nokkurn dag frá gos hófst. Á mælaborði ferðaþjónustunnar má sjá að 480 fóru upp að gosinu á páskadag, samanborið við 5.128 á föstudaginn langa. Gossvæðinu var lokað á laugardag vegna veðurs.

Veðrið í Geldingadal er bjart og fallegt en nokkuð kalt. Um tíu stiga frost var uppi á fjalli í morgun. „Það andar köldu úr norðanáttinni,“ segir Sigurður. Vind mun þó lægja á gosstöðvum í dag og spáð er hægri breytilega átt upp úr hádegi, björtu veðri og frosti um fimm stig.

Vakin er athygli á því á vef Veðurstofunnar að í hægum vindi geti gasmengun frá eldgosinu safnast fyrir nærri gosstöðvunum og náð þar háum styrk. Undir kvöld fer að hreyfa vind og um kl. 20 má búast við sunnan 8 m/s og líkur á snjókomu. Síðar í kvöld snýst vindur líklega til norðvestanáttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert