Valdi treyjunúmer til heiðurs vini sínum

Anwar El Ghazi fagnar marki með Aston Villa.
Anwar El Ghazi fagnar marki með Aston Villa. AFP

Hollenski vængmaðurinn Anwar El Ghazi gekk í vikunni til liðs við Everton á láni frá Aston Villa, en bæði lið leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla. Þar valdi hann sér treyjunúmerið 34, sem hefur persónulega merkingu fyrir El Ghazi.

Abdelhak Nouri klæddist þessu treyjunúmeri þegar hann fékk hjartaáfall í vináttuleik með Ajax gegn Werder Bremen í Austurríki sumarið 2017. Saman léku þeir hjá Ajax um nokkurra ára skeið.

Nouri varð fyrir óafturkræfum heilaskaða og var í dái um tæplega þriggja ára skeið áður en hann vaknaði loks undir lok mars-mánaðar árið 2020.

Þá greindi Abderrahim bróðir hans frá því að hann væri byrjaður að geta tjáð sig lítillega með því að hreyfa augabrúnir sínar.

El Ghazi er ekki sá fyrsti sem velur að klæðast treyju númer 34 til heiðurs Nouri. Það hafa Donny van de Beek hjá Manchester United, Joel Veltman hjá Brighton & Hove Albion, Sofyan Amrabat hjá Fiorentina, Justin Kluivert hjá Roma, Amin Younes hjá Napoli, Philippe Sandler hjá Anderlecht og Kevin Diks hjá AGF einnig gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert