Þurfti að hætta 70 ára og fær ekki bætur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Reykjavíkurborg af kröfu kennara um skaðabætur …
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Reykjavíkurborg af kröfu kennara um skaðabætur vegna starfsloka. mbl.is/Þór

Reykjavíkurborg var sýknuð í Héraðsdómi í dag af miskabótakröfu kennara í Breiðholtsskóla, sem höfðaði mál gegn borginni eftir að honum var gert að láta af störfum vegna aldurs í fyrra, sjötíu ára gömlum.

Málið er flókið og að því er segir í dómnum reyndi um margt á lagareglur sem ekki hefur reynt áður á fyrir íslenskum dómstólum.

Það hefur áður komið til kasta dómstóla, en það var þegar kennarinn gerði kröfu um að uppsögn hans yrði gerð ógild. Dómurinn hafnaði því með úrskurði 17. apríl, kennarinn ákvað að una honum, en fór engu síður fram á 1,5 milljón í bætur frá borginni og að skaðabótaskylda yrði viðurkennd.

Bundinn kjarasamningnum

Í grófum dráttum hélt kennarinn því fram að skólanum hafi ekki verið stætt á að segja honum upp á grundvelli kjarasamnings sem hann hafði þó gengist undir, s.s. kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga við Kennarasambands Íslands.

Dómurinn mat það aftur á móti svo að skólanum hafi verið þetta heimilt, enda geri kjarasamningurinn í fyrsta lagi ráð fyrir að þessi hátturinn sé hafður á og í öðru lagi hafi kennarinn aldrei sýnt að hann væri ekki fylgjandi samningnum og þar með ekki bundinn af ákvæðum hans.

Kennarinn hélt því þó fram í málatilbúnaði sínum að ákvæðið í samningnum væri í raun og veru ólögmætt, enda bryti það gegn æðri réttindum hennar sem nytu stjórnarskrárverndar. Þetta féllst dómurinn ekki á og bent var á að stjórnarskrárvarin réttindi geti að einhverju leyti vikið fyrir ákvæðum kjarasamninga.

Við Breiðholtsskóla.
Við Breiðholtsskóla. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Ekki skilyrði til að líta á starfslokin sem ólögmæt

Kennarinn hélt því fram að skólinn gætti ekki meðalhófs með því að segja upp starfsmanni sem væri fullkomlega hæfur til að sinna starfi sínu, enda væri engu lögmætu markmiði náð með slíkri ákvörðun.

Skólinn byggði sína kröfu um sýknu aftur á móti á því að starfslokin hafi verið lögmæt og í fullu samræmi við lög og ákvæði kjarasamninga. Engin skilyrði væru fyrir hendi til þess að líta á starfslokin sem ólögmæt.

Ákvæði um 70 ára starfslokaaldur voru til staðar í kjarasamningi sem gilti um störf kennarans þegar hann undirritaði ráðningarsamning árið 2016 og út frá því mátti ætla að kennarinn hafi ekki haft réttmætar væntingar um lengri starfsaldur sem fallið gætu undir vernd stjórnarskrárinnar.

„Ég hef mikinn áhuga á starfinu“

Í tölvupósti til skólastjóra 28. apríl 2019 skrifaði kennarinn: 

Í framhaldi af samtali okkar vil ég með formlegum hætti hér og nú óska eftir því að fá að halda áfram starfi mínu við Breiðholtsskóla. Ég hef mikinn áhuga á starfinu og velferð nemenda minna og hef fullt starfsþrek þrátt fyrir að vera orðin 70 ára. Mér finnst afar ósanngjarnt að þurfa að hætta að vinna fyrir aldurs sakir meðan ég get ennþá lagt mikið af mörkum til skólastarfsins.

Fer ég því fram á að litið verði framhjá aldri mínum og hann ekki látinn ráða því að ég þurfi tilneydd að hætta störfum. Bendi ég líka á að vegna mönnunarvandræða er verið að ráða fólk inn í skólann sem ekki  uppfyllir  allar  þær  kröfur  sem  gerðar  eru  samkvæmt  lögum,  reglum  og  stefnu skólayfirvalda. Tel ég óeðlilegt að ekki sé hægt að víkja frá þeirri kröfu að starfsfólk sé 70 ára eða yngri meðan hægt er að víkja frá öðrum kröfum.

Þessu var hafnað á grundvelli kjarasamningsins og var það lögmætt, að því er héraðsdómur hefur skorið úr um.

Reykjavíkurborg sagði að það leiði af eðli starfs kennara að lögmætt sé og eðlilegt að gera strangar kröfur til þeirra sem starfið inna af höndum, um líkamlega og ekki síst andlega hreysti. 

Þarfir nemenda séu þess eðlis að gera þurfi ríkar kröfur til kennara um að þeir séu hæfir og fullfrískir einstaklingar. Vísaði borgin þá til þess að þegar tilteknum aldri er náð séu einstaklingar almennt síður fullfærir um að mæta þeim kröfum sem kennarastarfið gerir til þeirra. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að um starfið gildi tiltekið aldurshámark sem ekki sé háð mati. Slíkar reglur eigi sér jafnframt hliðstæður á öðrum sviðum atvinnulífsins og taki reglan með sama hætti til allra sem eins stendur á um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert