Skipti um félag í Lundúnum

Cédric Soares og Kaoru Mitoma í leik Arsenal og Brighton …
Cédric Soares og Kaoru Mitoma í leik Arsenal og Brighton í deildabikarnum í nóvember. AFP/Glyn Kirk

Nýliðar Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu styrktu sig áður en félagaskiptaglugginn þar í landi lokaði seint í gærkvöldi. Portúgalski bakvörðurinn Cédric Soares kom að láni frá toppliði Arsenal.

Cédric, sem er 31 árs, skrifaði undir lánssamning sem gildir út yfirstandandi tímabil og færði sig þar með um set í Lundúnum.

Í gær festi Fulham kaup á serbneska miðjumanninum Sasa Lukic frá ítalska félaginu Torino og keypti einnig írska miðvörðinn Shane Duffy frá Brighton, en hann hafði verið að láni hjá félaginu frá því í sumar.

Var það raunar nauðsynlegt fyrir Fulham að kaupa Duffy til þess að geta fengið Cédric að láni þar sem félög í úrvalsdeildinni mega aðeins hafa tvo leikmenn í senn á láni frá öðrum félögum í deildinni.

Fyrir var og er Daniel James að láni hjá Fulham frá Leeds United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert