Hefur starfað við kosningar frá 9 ára aldri

Benni að störfum í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.
Benni að störfum í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Hjartarson sem situr í hverfiskjörstjórn í Reykjavík hefur meiri reynslu af kosningum en margur. Hann byrjaði að vinna við kosningar níu ára gamall og stóð hann vaktina á kjörstað í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. 

„Ég byrjaði að vinna í kosningum fyrir flokkana níu ára gamall fyrir algjöra tilviljun. Svo hefur þetta verið svo gaman að maður flutti sig úr pólitíkinni yfir í að starfa fyrir borgina,“ segir Benedikt sem er kallaður Benni.

Mikill hátíðisdagur

Í dag ganga landsmenn til sveitarstjórnarkosninga. 

„Þetta er svo gaman, þetta er svo mikill hátíðisdagur. Mér líður svo vel hérna alltaf. Hér er skemmtilegt fólk og maður kynnist mörgum nýjum,“ segir Benni. 

Er utanumhaldið búið að breytast mikið?

„Það er miklu meiri nákvæmni í öllu. Í gamladaga voru fulltrúar stjórnmálaflokkanna alltaf inni á deildum og það þrengdi allt svolítið en nú er það alveg búið. Það er allt mikið stífara og nákvæmara [en það var] og það er bara af hinu góða. Það eru engar reglur brotnar, við pössum það rosalega vel að öllu sé fylgt hér alveg eins og hægt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert