Átta í bann vegna svindls – Arnór tók ekki eftir neinu óvenjulegu

Arnór Atlason mætti Rússunum á EM í sumar.
Arnór Atlason mætti Rússunum á EM í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rússneska handknattleikssambandsið hefur sett átta leikmenn U19 ára landsliðs karla í ótímabundið bann vegna gruns um veðmálasvindl. 

Rússneska liðið tók þátt í lokakeppni EM í sumar þar sem það tapaði sjö af átta leikjum sínum og hafnaði í fimmtánda sæti af sextán liðum. Talið er að umræddir leikmenn hafi þegið greiðslur fyrir að tapa leikjunum.

Framkvæmdastjórn rússneska handknattleikssambandsins kemur saman næsta miðvikudag og þá verður farið yfir skýrslu nefndarinnar sem leiddi til bannsins.

„Við erum ævareið vegna framferði leikmannanna. Þeir hafa sett svartan blett á liðið, á félög sín og á þjóðina í heild sinni. Ég hef helgað handboltanum líf mitt og tel að það sé ekkert pláss fyrir svona fólk í þessari íþrótt," sagði Lev Voronin, framkvæmdastjóri rússneska handknattleikssambandsins, á vef þess.

TV2 í Danmörku tók málið upp þar sem Rússar töpuðu m.a. fyrir Dönum, 38:26, en þjálfari danska U19 ára landsliðsins er enginn annar en Arnór Atlason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands. Arnór sagðist ekki hafa tekið eftir neinu óvenjulegu í fari Rússanna í þeim leik.

„Við vorum gríðarlega vel undirbúnir þegar við mættum þeim, fannst við vera með miklu betra lið, svo ég tók ekki eftir neinu. Þegar þessi leikur var að baki fylgdist ég ekkert með leikjum Rússanna," sagði Arnór við TV2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert