Tapið í Eyjum sat í okkur

Hildur Antonsdóttir í leik gegn ÍBV.
Hildur Antonsdóttir í leik gegn ÍBV. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er alltaf erfitt að mæta Eyjastelpum, þær berjast og spila í fimmta gír. En við vorum klárar í kvöld og mættum þeim af hörku,“ sagði Hildur Antonsdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún skoraði tvö af sjö mörkum Breiðabliks í stórsigri á ÍBV í 11. umferð Pepsi Max-deildar í knattspyrnu í kvöld.

ÍBV vann fyrri leik liðanna í Vestmannaeyjum í byrjun móts, 4:2, en Blikar svöruðu fyrir sig í kvöld og unnu stórt, 7:2. „Það þurfti ekkert að segja mikið við okkur fyrir leik, tapið í Eyjum sat í hópnum og við vildum bæta fyrir það.“

Hildur er nýlega snúin aftur á völlinn eftir að hafa slitið krossband í fyrra. Hún kom inn á 66. mínútu í kvöld, og spilaði sinn þriðja deildarleik í sumar en hún kom einnig við sögu í 4:3-sigrinum gegn Val í undanúrslitum bikarsins á föstudaginn var.

„Ferlið gekk vel hjá mér og ég er ekki hrædd við að taka næstu skref. Vonandi fæ ég að spila meira í næsta leik, ég vil bæta við fleiri og fleiri mínútum,“ sagði Hildur sem telur ekki langt í að hún geti spilað heilan leik. „Það er innan við mánuður í það, ef ég kemst í byrjunarliðið!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert