Landsliðsmenn komnir í bullandi fallslag

Mikael Anderson og Jón Dagur Þorsteinsson með Andra Fannar Baldursson …
Mikael Anderson og Jón Dagur Þorsteinsson með Andra Fannar Baldursson á milli sín á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmennirnir Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Anderson eru komnir í bullandi fallbaráttu með AGF eftir ósigur fyrir Vejle, 1:0, á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Liðin eru í tíunda og ellefta sæti deildarinnar, af tólf liðum, en AGF hefur sigið jafnt og þétt niður töfluna undanfarnar vikur. Jón Dagur var kallaður aftur inn í liðið fyrir nokkru en áður hafði íþróttastjóri AGF ákveðið að hann myndi ekki spila meira á tímabilinu þar sem hann mun yfirgefa félagið í sumar.

Eftir tapið í dag er AGF með 29 stig og Vejle 26 stig þegar tvær umferðir eru eftir en SönderjyskE er þegar fallið með 22 stig. AGF hefði sent Vejle niður í B-deildina með sigri í leiknum í dag.

AGF á eftir að mæta Viborg á útivelli og Nordsjælland á heimavelli en Vejle á eftir að mæta Nordsjælland á útivelli og OB á heimavelli.

Jón Dagur og Mikael spiluðu báðir allan leikinn með AGF í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert