Níu sinnum þrír hjá Víkingum

Matthías Vilhjálmsson fagnar fyrsta marki leiksins.
Matthías Vilhjálmsson fagnar fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Víkingur úr Reykjavík vann þægilegan 4:0-sigur á KA í dag í Bestu deild karla i fótbolta. Þar með hafa Víkingar unnið alla níu leiki sína í deildinni og eru komnir með 27 stig.

Leikurinn er úr 15. umferð deildarinnar en honum var flýtt vegna þátttöku KA og Víkings í Evrópukeppnum.

Staðan var 2:0 fyrir gestina í hálfleik en þegar fyrri hálfleikur var gerður upp þá var ljóst að Víkingar voru mun sterkari. Þeir skoruðu strax á 3. mínútu en það mark var bara gjöf frá KA. Kristijan Jajalo markvörður KA gaf boltann beint í fæturna á Nikolaj Hansen við vítateigslínu og Víkingar þurftu einfalt spil til að koma boltanum í mark. Matthías Vilhjálmsson rak endahnútinn á þessa óvæntu sókn. Fylgdu Víkingar markinu eftir með nokkrum góðum sóknum áður en KA fór aðeins að rétta úr kútnum.

Birnir Snær Ingason skoraði annað mark fyrir hálfleik eftir góðan einleik. Þá hljóp hann óáreittur með boltann frá hliðarlínunni vinstra megin inn í markteig KA. Þar gat hann bara plantað boltanum út við stöng án þess að nokkur KA-maður kæmi út á móti honum. Í báðum mörkum Víkinga leit varnarlína KA illa út.

Í byrjun seinni hálfleiks gerðu Víkingar endanlega út um leikinn með öðru marki frá Matthíasi Vilhjálmssyni. Hann fékk boltann inni á markteignum og gerði vel í að koma honum í markið.

Eftir þetta mark var ekki mikið að gerast en eitt og eitt færi leit dagsins ljós og lykilmenn í liði Víkinga fengu hvíld snemma. Þeir áttu góða menn á bekknum og einn þeirra, Ari Sigurpálsson stráði salti í sár KA-manna með fjórða marki Víkinga skömmu fyrir leikslok. Fékk hann boltann inn fyrir varnarlínu KA eftir skallaeinvígi við miðlínu og enn leit varnarlína KA mjög illa út.

Það er alveg klárt mál að Víkingar eru gríðarlega sterkir þessa dagana og gaman verður að sjá hvað þeir fara hátt margföldunartöflunni. Þeir eru núna komnir í níu sinnum þrír en næstu leikir Víkinga í deildinni eru gegn Val og Breiðabliki.

Það er hvergi veikan blett að finna í liðinu og í dag þurftu Víkingar ekki að hafa of mikið fyrir sigrinum. Erfitt er að taka einstaka leikmenn úr erlendu leikmennirnir fjórir sáu um að stjórna þessu.

Leikmenn KA hafa nú ekki skorað í þremur deildarleikjum í röð og hafa norðanmenn ekki litið vel út gegn toppliðunum þremur og tapað samtals 10:0.

Sóknarleikur liðsins er ekki nógu kröftugur þrátt fyrir mikla hæfileika leikmanna og í dag fengu KA-menn varla færi. Annar höfuðverkur KA er svo sá einskaki hæfileiki leikmanna að gefa mörk. Annan leikinn í röð gáfu KA-menn andstæðingi sínum mark í stöðunni 0:0. Þrjú seinni mörk Víkinga voru svo full einföld og auðveld og voru KA-menn langt frá sínu besta. Það hjálpaði þeim ekki að hafa þurft að gera þrjár breytingar á varnarlínu sinni frá síðasta leik.

M-gjöfin fyrir leikinn og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

KA 0:4 Víkingur R. opna loka
90. mín. Leik lokið Þetta var aldrei spurning og Víkingur er enn með fullt hús stiga í deildinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert