Lyfjarisi greiðir sögulega háa sekt

Fyrirtækið játaði sök í þremur liðum og samdi um sekt …
Fyrirtækið játaði sök í þremur liðum og samdi um sekt fyrir þær. AFP

Purdue Pharma, lyfjarisinn sem kom verkjalyfinu OxyContin á markað á sínum tíma, hefur náð sáttum í viðræðum sínum við bandarísk dómsmálayfirvöld um bætur vegna þess víðfeðma skaða sem lyfin eru sögð hafa valdið bandarísku samfélagi.

Málaferli gegn fyrirtækinu hafa staðið árum saman en stórum áfanga hefur verið náð með þessari sátt, sem felur í sér að fyrirtækið gengst við vissum ákæruliðum, svo sem þeim, að hafa útvegað fjölda fólks lyfið „án raunverulegra læknisfræðilegra raka“, eins og segir hjá BBC.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu stendur mikill fjöldi lögsókna út af bæði af hálfu opinberra eininga og einstakra fjölskyldna, sem eiga harma að hefna eftir að ópíóðafíkn olli þeim ómældum skaða.

Ekki eru allir á eitt sáttir um þá niðurstöðu sem hefur fengist í málið. Fylkissaksóknari í Massachusetts sagði þannig að dómsmálayfirvöld hefðu brugðist. Aðrar gagnrýnisraddir hafa sagt að Sackler-fjölskyldan, eigendur Purdue, hafi mun fleiri líf á samviskunni en 400.000, eins og gert er ráð fyrir í samningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert