Sjö létust þegar jarðsprengja sprakk

Starfsmenn á kjörstað telja kjörseðla að kosningunum loknum í dag.
Starfsmenn á kjörstað telja kjörseðla að kosningunum loknum í dag. AFP

Sjö einstaklingar í kjörstjórn í Níger létust þegar jarðsprengja sprakk. Bifreið hópsins ók yfir heimatilbúna sprengju í Tillaberi-héraði í suðvesturhluta landsins. 

Fram kemur á BBC að það sé ekki vitað hvort bifreiðin hafi verið fyrirframákveðið skotmark.

Seinni umferð forsetakosninga fór fram í landinu í dag. Um er að ræða fyrstu lýðræðislegu valdaskipti í landinu frá því landið fékk sjálfstæði frá Frakklandi árið 1960, en Mohamed Bazoum, fyrrverandi utanríkis- og innanríkisráðherra landsins, fékk 40% atkvæða í fyrstu umferð kosninganna og þykir líklegur sigurvegari. Andstæðingur Bazoum í seinni umferðinni er Mahamane Ousmane, fyrrum forseti landsins, sem fékk 17% atkvæða í fyrri umferðinni. 

Þrír aðrir starfsmenn kjörstjórnarinnar slösuðust í sprengjunni. Hópurinn hafði verið á leiðinni að skila atkvæðakössum á kjörstað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert