Anton í undanúrslitin á nýju Íslandsmeti

Anton Sveinn McKee komst örugglega áfram í morgun og bætti …
Anton Sveinn McKee komst örugglega áfram í morgun og bætti í leiðinni eigið Íslandsmet. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Sundkappinn Anton Sveinn McKee hafnaði í fimmta sæti þegar hann synti í undanrásum 200 metra bringusunds á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Búdapest í Ungverjalandi í morgun. Hann bætti eigið Íslandsmet og tryggði sér örugglega sæti í undanúrslitum greinarinnar.

Anton Sveinn synti á tímanum 2:09,69 mínútum, nýju Íslandsmeti í greininni í 50 metra laug. Hann átti fyrra metið sjálfur, 2:10,02 mínúta, sem hann setti í mars á þessu ári.

Varð hann þriðji í sínum riðli, þriðja riðli, og fimmti í heildina og er því einn af þeim 16 sundmönnum sem taka þátt í undanúrslitunum síðar í dag. Þar er keppt um átta sæti í úrslitasundinu sem fer fram annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert