Ákærðar fyrir árás og hatursorðræðu

AFP

Tvær konur hafa verið ákærðar fyrir vopnaða árás og hatursorðræðu í garð tveggja kvenna sem báru höfuðslæður við Eiffel-turninn í París. Málið kemur upp á sama tíma og mikil spenna ríkir í frönsku samfélagi vegna morðs á sögukennara sem hafði sýnt nemendum sínum skopmyndir af Múhameð spámanni í tengslum við kennslu um tjáningarfrelsið. 

Konurnar, sem eru ákærðar, voru drukknar þegar þær mættu hópi múslíma-kvenna og barna á göngu í Champ de Mars garðinum við Eiffel-turninn. Önnur konan var með hund og kvörtuðu konurnar og börnin yfir hundinum og töldu hann ógna sér. Konurnar með hundinn voru ósáttar við þetta og dró önnur þeirra upp hníf og stakk tvær kvennanna ítrekað. Þær voru báðar fluttar á sjúkrahús og sú eldri, 40 ára, er enn á sjúkrahúsi með sex stungusár, meðal annars á lunga. 

Sú yngri, 19 ára, var stungin í þrígang en hún hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsi. Báðar segja þær að árásarkonurnar hafi kallað þær skítuga araba og að þær ættu ekki heima í þessu landi. 

Mikil reiði greip um sig á samfélagsmiðlum vegna málsins og saka sumir franska fjölmiðla um að hafa þagað yfir árásinni sem beint var gegn múslímum. Konan sem stakk konurnar tvær er í gæsluvarðhaldi en hin hefur verið látin laus gegn tryggingu, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar.

Vatn á myllu kölska – vígamanna

Þær voru ákærðar í gærkvöldi og er ákærurnar í nokkrum liðum. Meðal annars eru þær ákærðar fyrir vopnaða árás, ölvun, hatursorðræðu og samvinnu við árásina.

Lögmaður kvennanna sem urðu fyrir árásinni, Arie Alimi, segir að ákæran sé of væg enda séu þær sekar um morðtilraun á grundvelli uppruna og trúar þolendanna. Hann segir að önnur árásarkvennanna hafi ítrekað rifið í slæður þeirra kvenna sem voru í hópnum og talað niðrandi um slæðurnar. „Þessi hlutur sem þú ert með á hausnum.“

Alimi sakar segir að konurnar tvær hafi reynt að rífa slæðurnar af höfði þeirra. Konurnar tvær neita báðar hatursorðræðu. Lögmaður þeirra, Bernard Solitude, varar við því að frásögnin sé blásin út og mikilvægt sé að halda sig við staðreyndir. Deilur sem mögnuðust eftir móðgun. 

Alimi sakar frönsk yfirvöld um að vera á nornaveiðum. Með þeim aðgerðum sem gripið væri til, svo sem að loka mosku í hálft ár og uppræta hópa múslíma vegna drápsins á Samuel Pray, væri vatn á myllu kölska, það er vígamanna að ná raunverulegu markmiði sínu – að úlfúð í garð múslíma verði til þess að fleiri múslímar öfgavæðist sem annars hefðu aldrei gert það.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert