Nýr sjóður til að efla byggingarannsóknir

Nýr sjóður verður settur á fót til að efla byggingarannsóknir.
Nýr sjóður verður settur á fót til að efla byggingarannsóknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr sjóður til að efla byggingarannsóknir verður settur á fót í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og félagsmálaráðuneytis.

Hægt verður að sækja um styrk í sjóðinn fyrir verkefni sem styrkja og efla byggingarannsóknir. Áhersla verður lögð á samfélagslegar áskoranir á sviði mannvirkjagerðar, svo sem rakaskemmdir húsa, hagkvæmar en vandaðar byggingaraðferðir og vistvænar lausnir. Úthlutun verður í höndum fagráðs í samstarfi við ráðuneytin tvö sem fjármagna sjóðinn.

Byggingarannsóknir flytjast til Tækniseturs

Þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður þann 1. júlí munu byggingarannsóknir, sem sinnt var innan hennar, flytjast til nýstofnaðs Tækniseturs. Tæknisetur mun taka við verkefnum rannsóknastofu byggingariðnaðarins, frumkvöðlaseturs á sviði hátækni auk starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á sviði efnis-, líf- og orkutækni.

Þá mun útgáfa RB blaða flytjast til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en í blöðunum er fjallað um helstu málefni sem snerta byggingariðnaðinn og niðurstöður nýjustu rannsókna sem haft geta áhrif á byggingaraðferðir. Blöðin hafa verið gefin út frá árinu 1973 og eru notuð af fagmönnum í byggingariðnaði og húseigendum til viðmiðunar um viðhald og gerð mannvirkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert