Balotelli fær aftur tækifæri með landsliðinu

Mario Balotelli.
Mario Balotelli. AFP

Mario Balotelli, sem hefur átt skrautlegan feril, hefur fengið nýtt tækifæri til að sýna sig og sanna með ítalska landsliðinu því hann var í dag valinn í landsliðshópinn hjá Evrópumeisturunum.

Ítalir búa sig undir umspil um sæti á HM í mars þar sem þeir leika við Norður-Makedóníu en sigurliðið þar leikur síðan til úrslita við Portúgal eða Tyrkland.

Þrjú ár eru síðan Balotelli lék síðast með landsliði Ítala en hann þekkir landsliðsþjálfarann vel því Roberto Mancini var með hann undir sinni stjórn hjá Manchester City á sínum tíma.

Balotelli hefur í vetur leikið við hlið Birkis Bjarnasonar með Adana Demirspor í Tyrklandi en liðið hefur þar komið skemmtilega á óvart og er í fjórða sæti þegar 23 umferðir hafa verið leiknar af 38. Balotelli er markahæsti leikmaður liðsins með átta mörk.

Balotelli er orðinn 31 árs gamall en hann hefur skorað 14 mörk í 36 landsleikjum fyrir Ítalíu. Þar af skoraði hann sjö mörk fyrir landsliðið á árinu 2013 og þá skoraði hann sigurmark Ítalíu gegn Englandi, 2:1, í lokakeppni HM í Brasilíu árið 2014.

Frá þeim tíma hefur hann átt frekar erfitt uppdráttar og oft komið sér í vandræði með hegðun sinni utan vallar sem innan.

Það er þó ekki víst að Balotelli fari í landsliðstreyjuna. Í hópnum sem kemur saman til stuttrar æfingatarnar dagana 26. til 28. janúar eru 35 leikmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert