Aflýsa flugferðum: Aukin hætta talin á flugslysum

Farþegaþota Finnair á Helsinki-flugvelli þann 23. apríl.
Farþegaþota Finnair á Helsinki-flugvelli þann 23. apríl. AFP

Finnska flugfélagið Finnair hefur aflýst öllum fyrirhuguðum flugferðum til og frá eistnesku borginni Tartu næsta mánuðinn, sökum GPS-truflana sem raktar eru til rússneskra yfirvalda.

Tvær farþegaþotur á leið til Tartu á vegum félagsins þurftu að snúa aftur til Helsinki vegna GPS-truflana í síðustu viku.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu, sem gefin var út í dag, segir að beðið sé eftir að annarri aðflugslausn verði komið fyrir á flugvellinum, sem ekki þarf að reiða sig á GPS-staðsetningartæknina.

Eistneski utanríkisráðherrann Margus Tsahkna tjáði eistneska ríkisútvarpinu í dag að truflanirnar væru af völdum „algjörlega vísvitandi aðgerða“ af hálfu Rússa og að um væri að ræða árás í vissum skilningi.

Ráðherrar vara við truflunum

„Rússland veit mætavel að truflanir þess eru mjög hættulegar fyrir flugferðir okkar og ganga í bága við alþjóðasáttmála, sem Rússland á einnig aðild að,“ sagði Tsahkna.

Utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna vöruðu við því í gær, í viðtali við Financial Times, að víðtækar GPS-truflanir Rússa ykju hættuna á flugslysi. Bentu þeir á umræddar flugferðir Finnair sem snúa þurfti við í miðjum háloftunum.

Finnair er eina flugfélagið sem heldur úti alþjóðaflugi á flugvellinum.

„Flugöryggi er alltaf í efsta forgangi hjá okkur, og þar sem aðflugið í Tartu þarfnast GPS-sambands á þessari stundu þá getum við ekki flogið þangað þegar GPS-truflanir eru,“ var haft eftir Jari Paajanen, flugrekstrarstjóra Finnair.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert