Þannig aðstæður að allt getur gerst

Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er gríðarlega sáttur með þessi þrjú stig og sigurinn í dag við erfiðar aðstæður. Við spiluðum á köflum góðan fótbolta og sköpuðum okkur slatta af færum og náðum að halda markinu hreinu,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur á Gróttu á heimavelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Sigurinn var sá fyrsti hjá ÍA síðan um miðjan ágúst og því kærkomin þrjú stig í hús. „Það er alltaf gaman að vinna fótboltaleiki. Hlutirnir hafa ekki alveg verið að detta með okkur en við þurfum að sjá til þess að við förum inn í leiki og aukum líkurnar á að við vinnum fótboltaleiki.“

Var staðan 1:0 þegar tíu mínútur voru til leiksloka, en Skagamenn bættu við tveimur mörkum undir lokin. „Þetta voru þannig aðstæður að allt getur gerst. Gróttumenn hafa verið sterkir í föstum leikatriðum og fengu föst leikatriði í dag en við vörðumst þeim vel og vorum grimmir, ég er sáttur við það. Auðvitað leið manni mikið betur þegar staðan var orðin 2:0.

Sigurður Hrannar Þorsteinsson skoraði annað mark ÍA með sínu fyrsta marki í efstu deild. „Það var frábært að sjá hann skora. Hann hefur verið frábær þegar hann kemur inn á í sumar. Hann gefur gott fordæmi með dugnaðinum. Það var kærkomið fyrir hann og mig að hann skoraði í dag,“ sagði Jóhannes. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert