Skaut sex sinnum að feðginum á aðfangadagskvöld

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir tilraun til manndráps, húsbrot, hættubrot og vopnalagabrot vegna skotárás­ar sem átti sér stað í Hafnar­f­irði á aðfanga­dags­kvöld. Tveir aðrir eru ákærðir fyrir hlutdeild í brotum mannsins.

Mennirnir réðust grímuklæddir inn á heimili og skaut byssumaðurinn samtals sex skotum án viðvörunar í átt að dóttur og föður hennar. 

Í ákærunni er því lýst hvernig dóttirin stóð í fyrstu rétt fyrir framan dyrnar að svefnherbergi sínu. Faðir hennar sat þar inni við skrifborð en stóð upp eftir að skothríðin hófst. Hann greip dóttur sína og færði inn í herbergið þar sem að hann skýldi henni uns skothríðinni lauk.

Fjögur skot höfnuðu á vegg hægra megin við inngang svefnherbergisins. Þá fór eitt skot í gegnum hægri hurðarstaf og inn í svefnherbergi stúlkunnar þar sem það endaði á milli miðstöðvarofns og gluggakistu og eitt skot fór beint inn í herbergið með svipaðan endastað milli miðstöðvarofns og gluggakistu, „en með þessu stofnaði ákærði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu allra í íbúðinni í augljósan háska“.

Stúlkan hlaut eymsli í andliti eftir að óþekkt brak hafnaði í andliti hennar í kjölfar þess að eitt skotið hafnaði á hörðum fleti.

Greiddi 80 þúsund fyrir skutl

Líkt og áður sagði eru tveir aðrir ákærðir fyrir hlutdeild í brotum mannsins. 

Annar þeirra er ákærður fyrir að hafa liðsinnt byssumanninum við undirbúning og framkvæmd brotsins.

Í ákærunni segir að áður en þeir ruddust inn á heimilið greiddi hann þriðja manninum 80 þúsund krónur fyrir að aka þeim á staðinn, ásamt því að skilja farsíma sinn eftir, taka með föt til skiptanna og aðstoðað við að skipta um númeraplötur á bifreiðinni, allt til að villa um fyrir lögreglu.

Hann ruddist síðan inn á heimilið með byssumanninum og veitti honum liðsinni með nærveru sinni á meðan byssumaðurinn skaut úr byssunni.

Eftir að þriðji maðurinn ók þeim síðan frá vettvangi, fleygði maðurinn fatnaði hans og byssumannsins í ótilgreint vatn við Krýsuvíkurveg og hringdi í fjórða manninn og bað hann um að sækja þá. 

Maðurinn bað síðan þann mann um að hylja myndavél við inngang áður en þeir gengu inn í húsnæði. 

Stal númeraplötu

Þriðji maðurinn er ákærður fyrir að sækja meðákærðu í Reykjavík, aka þeim að starfstöð í Garðabæ þar sem þeir stálu númeraplötum af bifreið og settu hana á bifreið ákærða. Hann ók þeim síðan að heimilinu í Hafnarfirði. 

Eftir að skotárásinni lauk ók hann meðákærðu áleiðis eftir Krýsuvíkurvegi og að Krýsuvíkurkirkju þar sem meðákærðu yfirgáfu bifreiðina. Maðurinn setti þá aftur rétt skráningarnúmer á bifreið sína áður en hann ók á brott. 

Í ákærunni er þess krafist að allir þrír ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að Colt-skammbyssan sem notuð var í árásinni verði gerð upptæk. Einkaréttarkröfur í málinu nema rúmlega 14 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert