Nýliðar Midnight Bulls komu á óvart

Fyrsta umferð Turf-deildarinnar fór fram í gærkvöldi.
Fyrsta umferð Turf-deildarinnar fór fram í gærkvöldi. Grafík/Turf-deildin

Turf-deildin í Rocket League hófst í gærkvöldi, en leikin var heil umferð sem samanstendur af fjórum viðureignum. Allar viðureignir Turf-deildarinnar eru spilaðar best-af-5, og mætast öll lið tvisvar á tímabilinu. Leiknar verða ein og hálf umferð í viku, og stendur tímabilið yfir í um tíu vikur. 

Turf-deildin verður leikin alla sunnudaga og þriðjudaga til jóla, og verða allar útsendingar í beinni á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport.

Nýliðar Rafík sigruðu í spennandi viðureign

Fyrsti leikur umferðarinnar var leikur Þór Akureyri og Rafík. Þór Akureyri enduðu í öðru sæti á síðasta tímabili, eftir að hafa tekið gríðarlega miklum framförum yfir það tímabil. Rafík hins vegar spiluðu í fyrstu deild RLÍS á síðasta tímabili og eru því nýliðar í úrvalsdeild RLÍS, eða Turf-deildinni, á þessu tímabili.

Varð þessi viðureign mest spennandi viðureign gærkvöldsins, en eftir að hafa lent 1-2 undir börðust leikmenn Rafík hetjulega og lönduðu 3-2 sigri á móti Þór Akureyri. Þór Akureyri tefldu fram nýjum leikmanni sem ekki hefur spilað í úrvalsdeildinni áður, honum Danna Juice. Hann stóð sig hetjulega, en kraftar Þór Akureyri voru ekki nægir til að sigra sterkt lið Rafík.

Sigur LAVA esports aldrei í hættu

LAVA esports mættu oCtai esport í annari viðureign kvöldsins. OCtai esports eru nýliðar í deildinni, en hafa þeir spilað síðustu tvö tímabil í fyrstu deild RLÍS, á meðan eru LAVA esports, áður KR White, tvöfaldir Íslands- og deildarmeistarar. Það var því ljóst að viðureign þessi átti eftir að vera erfið fyrir oCtai esports, og var þeim hreinlega hent beint í djúpu laugina.

Viðureignin var tíðindalítil, og lauk með 3-0 sigri LAVA esports. Nýjast leikmaður LAVA esports, sem ekki lék með þeim í fyrra er liðið hét KR White, hann Paxole stóð sig mjög vel og var ekki að sjá að hann væri nýjasta viðbót liðsins. Vaddimah var fjarri góðu gamni, en sögur segja að hann hafi verið að spara krafta sína fyrir leik LAVA esports á móti Rafík sem fram fer á þriðjudaginn.

Midnight Bulls komu á óvart

Þriðja viðureign kvöldsins var sú sem kom mest á óvart. Lið KR, áður KR Black, mætti liði Midnight Bulls. KR Black enduðu í þriðja sæti á síðasta tímabili í úrvalsdeild RLÍS, en Midnight Bulls spiluðu í fyrstu deild RLÍS á síðasta tímabili og eru því nýliðar líkt og Rafík og oCtai esports.

Viðureignin varð aldrei spennandi, en Midnight Bulls mættu í fyrsta leik sinn í Turf-deildinni með sópinn á lofti og sópuðu þriðja besta liði síðasta tímabils. Endaði viðureignin 3-0 fyrir Midnight Bulls og náðu KR-ingar sér aldrei á strik. Midnight Bulls spilaði agaðan leik og refsuðu KR-ingum fyrir öll sín mistök og gerði það herslumuninn. 

Somnio slapp með skrekkinn

Somnio og Panda Bois mættust í fjórðu og síðustu viðureign kvöldsins. Bæði lið spiluðu í úrvalsdeild RLÍS á síðasta tímabili og enduðu bæði lið í 5. – 6. sæti þá. Því var búist við jöfnum leikjum milli liðanna. Panda Bois skiptu út varamanni sínum frá síðasta tímabili, en Somnio fékk inn nýjan liðsmann í byrjunarlið sitt. 

Leikirnir voru flestir spennandi, og hefðu getað endað öðru hvoru megin. Segja má að Somnio hafi sloppið með skrekkinn er þeir unnu viðureignina 3-1, en bæði liðin gerðu mörg mistök og leit spilastíll beggja út fyrir vera mjög óskipulagður að mestu leyti. 

Næstu viðureignir spilaðar á morgun

Næstu viðureignir deildarinnar verða spilaðar á morgun, þriðjudag, þar sem LAVA esports mæta Rafík og oCtai esports mæta Midnight Bulls. Allir nýliðarnir mæta til leiks á morgun, og verður sannkallaður nýliðaslagur milli oCtai esports og Midnight Bulls. Báðar viðureignir verða sýndar í beinni útsendingu sem hefst klukkan 18:30 á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert