Erfiðustu tvö ár ferilsins

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir árið 2020. Þá var faraldurinn rétt að …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir árið 2020. Þá var faraldurinn rétt að byrja. mbl.is/Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að síðustu tvö ár ferils hans hafi verið þau annasömustu og erfiðustu. Aldrei áður hafi hann verið undir svo mikilli pressu í svo langan tíma. Þórólfur lætur af störfum í septembermánuði og grínast með að sjálfskipaðir sérfræðingar í sóttvörnum hugsi sér eflaust gott til glóðarinnar hvað lausu stöðuna varðar.

Þórólfur hóf störf hjá embætti landlæknis árið 2002 en tók við starfi sóttvarnalæknis árið 2015. Hann segist ekki hafa íhugað það áður alvarlega að láta af störfum.

„Ég hef verið spurður nokkrum sinnum um það hvenær ég ætli að hætta. Ég hef svo sem bent á það að ég verði sjötugur á næsta ári og þurfi en hætta en ég myndi ekki hætta fyrr en ég sæi að faraldurinn væri kominn á góðan stað,“ segir Þórólfur.

Margt sem mælir með starfslokum

Ástæðurnar fyrir því að hann hættir nú eru bæði af faglegum og persónulegum toga. „Þetta eru engar stórkostlegar ástæður í sjálfu sér,“ segir hann spurður nánar um ástæðurnar.

„Ég held að það sé bara mjög margt sem mælir með því að ég hætti á þessum tímapunkti.“

Hann tekur fram, eins og oft áður, að kórónuveirufaraldrinum sé ekki lokið fyllilega.

„Maður veit auðvitað aldrei hvað gerist, þetta er ekki búið og það geta átt eftir að vera einhverjar sveiflur í þessu áfram en það er enginn endapunktur á því í sjálfu sér. Það er bara áframhaldandi verkefni sem heilbrigðisyfirvöld þurfa sífellt að eiga við.“

Þórólfur á einum af ótal upplýsingafundum almannavarna.
Þórólfur á einum af ótal upplýsingafundum almannavarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil pressa í langan tíma

Kórónuveiran fór fyrst að láta á sér kræla snemma árs 2020. Spurður hvort tímabilið síðan hafi verið það mest krefjandi á ferli hans segir Þórólfur:

„Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því að þetta hefur verið annasamasta og erfiðasta tímabil í minni vinnu þannig lagað séð þó það séu náttúrulega alls konar augnablik sem hafa komið upp bæði þegar ég var að vinna sem smitsjúkdómalæknir og sem læknir. Það hafa komið alls konar hlutir upp sem hafa verið snúnir og erfiðir en þeir hafa aldrei enst svona lengi. Ég hef aldrei áður verið undir svona mikilli pressu svona lengi,“ segir Þórólfur.

Sjálfskipaðir sérfræðingar hugsa sér eflaust gott til glóðarinnar

Embætti landlæknis ætlar að auglýsa starf sóttvarnalæknis á næstu dögum. En er til fólk á þessu landi sem gæti sinnt starfinu?

„Það er til fullt af fólki sem getur komið inn í þetta,“ segir Þórólfur og bætir svo við kíminn:

„Svo er landið uppfullt af sjálfskipuðum sérfræðingum í sóttvörnum og smitsjúkdómum svo ég held að það séu margir sem gætu hugsað sér gott til glóðarinnar. Mér sýnist ekki hafa verið hörgull á því fólki.“

Þríeykið svokallaða. Það skipa ásamt Þórólfi Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og …
Þríeykið svokallaða. Það skipa ásamt Þórólfi Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Alma Möller landlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þakkarefni hve vel fólk hefur staðið saman

Þórólfur vinnur nú að því ásamt fleirum að rýna í viðbrögð við faraldrinum. Um er að ræða vinnu sem embætti landlæknis kemur að ásamt stjórnvöldum. Vinnan er einungis nýhafin.

„Þetta er kannski heldur meiri rýni en við höfum þurft að gera fram að þessu,“ segir Þórólfur og á þá við að faraldurinn hafi verið áberandi stór atburður sem þurfi að fara yfir.

Aðspurður segir Þórólfur ekki ákveðið hvað taki við hjá honum í september.

Hefurðu einhver skilaboð til þjóðarinnar?

„Það er mikilvægt að menn standi saman og að það verði sátt um það sem þarf að gera þegar svona atburður gerist. Það er auðvitað þakkarefni hvernig almenningur hefur staðið saman og komist saman í gegnum þetta. Þetta er hins vegar ekki búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert