Handtekin eftir skotárás í Hollandi

Norðmennirnir voru handteknir í Bergen aan Zee við vesturströnd Hollands …
Norðmennirnir voru handteknir í Bergen aan Zee við vesturströnd Hollands eftir að kólumbískur maður var skotinn til bana í deilum við hóp af fólki við Van der Wijckplein síðdegis á þriðjudaginn. Ljósmynd/Wikipedia.org/S.J. de Waard

Tveir Norðmenn, 25 ára gömul kona og 28 ára karlmaður, eru í haldi lögreglu í Hollandi eftir skotárás sem átti sér stað í bænum Bergen aan Zee á þriðjudaginn. Árásin beindist að hálffimmtugum Kólumbíumanni, sem lést af sárum sínum, og hafa alls átta manns verið handteknir vegna málsins.

Ragnhild Simenstad, upplýsingafulltrúi norska utanríkisráðuneytisins, hefur staðfest við dagblaðið VG að tveir norskir ríkisborgarar séu í haldi lögreglu í Hollandi, en getur ekki tjáð sig frekar um málið.

„Utanríkisþjónustan mun í samræmi við verklagsreglur bjóða þá aðstoð sem reglur og viðmið um aðstoð við norska borgara, sem handteknir eru erlendis, gera ráð fyrir,“ segir Simenstad.

Hinir handteknu sitja nú í einangrun og hafa eingöngu heimild til að ræða við verjendur sína auk lögreglu.

Óku í loftköstum af vettvangi

Ekki er ljóst hvaða grunur hvílir á Norðmönnunum, en vitni lýsa atburðarásinni þannig að fólkið hafi átt í háværum deilum á Van der Wijckplein í Bergen aan Zee, bæ í Nord-Holland, um níu kílómetra vestur af Alkmaar.

Þetta var síðdegis á þriðjudaginn og leið ekki á löngu uns skothvellir glumdu. Þeim, sem fyrir skotunum varð, var komið um borð í gráa bifreið sem ók í loftköstum af vettvangi. Hinir, sem á vettvangi voru, forðuðu sér inn í þrjár aðrar bifreiðar og óku á brott.

Van der Wijckplein í hollenska smábænum Bergen aan Zee þar …
Van der Wijckplein í hollenska smábænum Bergen aan Zee þar sem Kólumbíumaðurinn var skotinn á þriðjudag. Norska utanríkisráðuneytið staðfestir að tveir norskir ríkisborgarar séu í haldi lögreglu í kjölfar atburðarins. Skjáskot/Google Street View

Bifreiðin með fórnarlambinu nam staðar eftir tíu mínútna akstur og komu lögregla og sjúkralið fljótt þar að. Voru lífgunartilraunir gerðar á Kólumbíumanninum, en reyndust árangurslausar og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi.

Áttmenningarnir voru handteknir fljótlega eftir atburðinn og biðlar lögregla nú til allra sem hugsanlega hafa myndefni undir höndum, hvort sem er úr símum eða öryggismyndavélum, að fara yfir það og hafa eftir atvikum samband við lögreglu.

VG

TV2

Stavanger Aftenblad

NH Nieuws (á hollensku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert