Fá að fara inn á svæðið í fylgd

Við veglokun að Keili á Reykjanesskaga.
Við veglokun að Keili á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrr í dag, eftir að vart varð um óróapúls á Reykjanesi og aðgerðir Almannavarna fóru að snúast um viðbúnað við mögulegu eldgosi, lokaði lögreglan á Suðurnesjum veginum inn að Keili, en sá vegur er líklegastur til að liggja næst þeim stað þar sem eldgos gæti orðið. Fréttamönnum sem voru inni á svæðinu var á sjötta tímanum gert að yfirgefa það.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segir í samtali við mbl.is að stefna Almannavarna hafi ekki verið að loka svæðinu fyrir umferð, en að málið sé í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum.

Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi sett upp lokunarsvæði, enda sé talin hætta á svæðinu ef til eldgoss kæmi. Þannig bendir hann á að Trölladyngja, þar sem mikil skjálftavirkni hafi verið, sé t.d. mjög nálægt bílastæðinu sem liggur við gönguleiðina að Keili og ekki sé langt í það svæði sem mestar líkur eru taldar á að eldgos komi upp.

Sérsveitin rekur fjölmiðla í burtu af svæðinu.
Sérsveitin rekur fjölmiðla í burtu af svæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitthvað hefur verið um að almenningur hafi komið að lokunarsvæðinu og ætlað að ganga inn að Keili, en Gunnar segir að lögreglan vilji ekki „missa menn út um hvippinn og hvappinn.“ Hætta sé á gosmengun á svæðinu.

Hins vegar sé lögreglan að leggja lokahönd á leið til að heimila fréttafólki að fara inn á svæðið, en það verður gert í fylgd björgunarsveita sem verða með tvo gasmæla meðferðis.

Þá hefur lögreglan einnig sett í gang upplýsingakerfi sem sendir sms-skilaboð á þá sem fara inn fyrir lokunarsvæðið. Verður fólki í skilaboðunum bent á að halda sig frá því svæði sem vísindamenn benda á að verði hugsanlegur vettvangur eldgoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert